Fórnarlambið enn á sjúkrahúsi

Hrottafengin líkamsárás var gerð í miðri íbúðagötu í Seljahverfi í …
Hrottafengin líkamsárás var gerð í miðri íbúðagötu í Seljahverfi í gær og var vettvangurinn blóði drifinn.

Maðurinn sem ráðist var á í Seljahverfi í Breiðholti í gær er enn á sjúkrahúsi, samkvæmt upplýsingum frá lækni. Hann var fluttur alblóðugur í framan á sjúkrahús en árásin átti sér stað um hábjartan dag fyrir augum fjölda sjónarvotta í íbúðarhverfi.

Læknirinn vildi ekki upplýsa hver meiðsli mannsins væru enda rannsókn árásarinnar á viðkvæmu stigi.

Tveir karlmenn á fertugsaldri voru handteknir í gærkvöldi en þeir eru grunaðir um að hafa ráðist á manninn. Ekki er vitað hvort farið verður fram á gæsluvarðhald yfir þeim síðar í dag.

„Þetta var bara úti á götu fyrir allra augum. Það stóðu allir úti á svölum í sjokki,“ segir íbúi í Ystaseli í Seljahverfi í Breiðholti sem varð vitni að því þegar að minnsta kosti tveir karlmenn gengu í skrokk á öðrum í götunni síðdegis í gær.

Íbúarnir telja að um handrukkun hafi verið að ræða enda var hafnaboltakylfu meðal annars beitt við barsmíðarnar.

„Aðkoman var skelfileg. Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt nema kannski í bíómyndum,“ segir sjónarvotturinn.

Mikið blóð var á götunni og á nálægum bíl eftir átökin en maðurinn sem ráðist var á var fluttur alblóðugur í andlitinu á sjúkrahús. Árásarmennirnir skildu hafnaboltakylfuna eftir á vettvanginum.

Árásarmennirnir komust undan á silfurlituðum Landcruiser-jeppa áður en lögregla kom á vettvang. Sjónarvottur segir að þeirra á meðal hafi verið landsþekktur handrukkari.

Tvímenningarnir sem voru handteknir í gærkvöldi eru þekktir af lögreglu. Ekki er þó útilokað að fleiri hafi tekið þátt í árásinni en haft var eftir vitnum að allt að tíu manns hefðu verið á vettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert