Maðurinn sem gengið var í skrokk á í Seljahverfinu í Breiðholti á föstudaginn hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi. Illdeilurnar sem urðu að blóðugum átökum virtust halda áfram á netinu. Rétt eins og líkamsárásin átti sér stað fyrir allra augum deila menn nú fyrir opnum tjöldum um atburðarásina.
Mönnunum tveimur sem handteknir voru á föstudagskvöld eftir árásina var sleppt í gær eftir yfirheyrslur lögreglu og sagði Friðrik Smári Björgvinsson yfirmaður rannsóknardeildar lögreglu í gær að málsatvik liggi nokkuð ljóst fyrir.
Samkvæmt heimildum mbl.is voru þarna á ferðinni illdeildur eða n.k. uppgjör milli manna tengdum undirheimunum og munu eiga rót sína í nauðgunarkæru. Íbúar við götuna sem vitni urðu að árásinni báru þar kennsl á þekktan handrukkara.
Á facebook síðu Jóns „stóra“ Hallgrímssonar fer í dag og í gær fram umræða sem er öllum opin sem sjá vilja, en þar deilir Jón m.a. við síbrotamanninn Stefán Blackburn og af umræðunni að dæma virðast þeir báðir hafa verið á staðnum.