Kajakmaðurinn Guðni Páll Viktorsson er enn í Höfnum á Reykjanesi og hefur verið þar frá því á föstudag á hringferð sinni um landið. Þar situr hann fastur vegna óhagsstæðra veðurskilyrða. Hann býst við því að geta lagt af stað að nýju á þriðjudag eða miðvikudag.
„Ég er búinn að vera ótrúlega óheppinn með veður síðan ég fór af stað. Eins og aðrir hafa séð þá er sumarið ekkert komið,“ segir Guðni Páll í spjalli við mbl.is. Hann segir þó að hann sé hvíldinni fegin og að honum gefist nú tími til að láta sár gróa. „Ég er með blöðrur á höndunum sem fá smá tíma til að jafna sig núna,“ segir Guðni Páll.
Hann náði meðal annars að fylgjast með Eurovision á laugardag en tók aðspurður fyrir það að hafa stoppað sérstaklega til þess að ná keppninni. „Nei það var nú ekki svo,“ segir Guðni Páll en bætir við að það hafi verið notalegt að koma við í Reykjavík þar sem Ísfirðingurinn dvelur á veturna og hitta kærustuna.
Eins og fram kom hjá mbl.is hefur Guðni meðal annars orðið var við seli á ferðum sínum. En einnig hefur hann séð fleiri dýr. „Ég hef tvisvar séð háhyrninga. Þeir eru líklega einu skepnurnar í sjónum sem maður er pínulítið smeykur við,“ segir Guðni Páll. Hann segir þó að þeir hafi lítið verið að spá í hann og að þeir hafi að öllum líkindum verið í ætisleit.
Guðni Páll safnar fé fyrir verkefnið Lífróður Samhjálpar og hér er hægt er að leggja söfnuninni lið.