Ingólfur á toppinn í fyrramálið

Ingólfur Geir Gissurarson Everest-fari.
Ingólfur Geir Gissurarson Everest-fari.

Ingólfur Geir Gissurarson og félagar hans í Everest 2013 hópnum eru komnir í suðurskarð  fjallsins, í 7950 metra hæð. Hann á því eftir um 900 metra hæðarhækkun og ekki er ólíklegt að hann verði kominn á toppinn á milli klukkan 6 og 8 í fyrramálið, gangi allt að óskum.

Þetta segir Jón Jóhann Þórðarson, talsmaður Ingólfs Geirs. Að sögn Jóns er Ingólfur Geir nú í hvíld í búðum og mun halda kyrru fyrir fram eftir degi og mun að öllum líkindum leggja af stað um klukkan 17 að íslenskum tíma gangi áætlanir eftir.

„Tímasetningin er ekki alveg endanlega staðfest, en við ræddum við búðarstjórann sem sagði að allir væru í góðu formi og líklega væri hægt að leggja af stað á þessum tíma,“ segir Jón.

Ingólfur Geir mun reyna að kveikja á staðsetningartæki  þegar hann leggur af stað á toppinn og geta áhugasamir fylgst þannig með ferðum hans. Komist hann á toppinn í fyrramálið, er það í samræmi við áætlanir hans, en áður hafði hann sagst stefna að því að vera á toppnum 21. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert