Þegar veröld barna hrynur

Margir foreldrar í ofbeldissamböndum halda að hægt sé að halda …
Margir foreldrar í ofbeldissamböndum halda að hægt sé að halda börnum sínum fyrir utan ofbeldið, en svo er ekki raunin. Börnin þjást einnig þó að ofbeldinu sé ekki beinlínis beint að þeim eða þau verði beint vitni að því. mbl.is/Rax

„Það getur haft mikil áhrif á börn að verða vitni að ofbeldi inni á heimili, sérstaklega ef um endurtekin atvik er að ræða. Börn eru missterk,“ segir Ragna Björg Guðbrandsdóttir félagsráðgjafi sem í eitt og hálft ár hefur unnið með börnum sem hafa orðið vitni að heimilisofbeldi. Hún segir að það komi fyrir að veröld barnanna hrynji þegar þessi atvik koma upp.

Verkefnið er tilraunaverkefni sem hófst í september 2011, en því lýkur í júní á þessu ári. Í áfangaskýrslu um verkefnið kemur fram að frá október 2011 til október 2012 ræddi Ragna við 173 börn. Stærsti hluti þeirra eða 127 voru tilkomin vegna aðkomu sérfræðings að málum þeirra í tengslum við útköll lögreglu á heimilið. Málum 46 barna var vísað til sérfræðings frá starfsfólki barnaverndarnefnda. Ragna fékk 75 börn til áframhaldandi meðferðar. Samstarfsaðilar verkefnisins eru Barnaverndarstofa, barnaverndarnefndir á höfuðborgarsvæðinu, ásamt lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Ragna hefur fengið aðstöðu til að ræða við börnin hjá Drekaslóð.

Stundum gleymist að ræða við börnin

Tilraunaverkefni vegna heimilisofbeldis er ný nálgun á málefni barna sem hafa orðið vitni að ofbeldi á heimilum sínum. Rannsóknir sem stuðst er við í þessum málaflokki benda til að börn njóti oft ekki jafnræðis þegar ofbeldi kemur upp á heimilum. Oft sé meiri áhersla lögð á að ræða við ofbeldismanninn eða brotaþola, en þarfir barnanna ekki hafðar að leiðarljósi.

Markmið þessa verkefnis er að undirstrika það mikilvægi að ræða við börn og gefa þeim tækifæri á að tjá sig þegar ofbeldi kemur upp á heimilinu. Reynsla Rögnu er sú að börnin eru þakklát fyrir þá athygli sem þau fá og hefur enginn neitað að ræða við hana.

Ragna sagði að flest þessara mála væru tilkomin vegna þess að tilkynning kæmi frá lögreglu um heimilisofbeldi. Fulltrúi frá Barnavernd fer í flestum tilvikum líka á staðinn til að ræða við foreldrana, þ.e.a.s. ef það er hægt, en Ragna einbeitir sér að því að ræða við börnin.

„Ég ræði við börnin um það sem þau hafa upplifað og séð. Ég reyni að meta hvaða áhrif þetta er að hafa á þau, hvort þetta hafi gerst áður og hvort þau séu í þörf fyrir áframhaldandi stuðning. Ég fylgi síðan þeim börnum eftir í meðferð sem ég tel að þurfi á stuðningi að halda, í samráði við foreldra.“

Í 57% mála er ofbeldismaðurinn undir áhrifum áfengis eða vímuefna

Ragna sagði sláandi hversu algengt það væri að sá sem beitti ofbeldinu væri undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna, en það átti við um meira en helming málanna sem hún kom að á fyrstu 12 mánuðum verkefnisins.

Öll mál sem lögregla hefur afskipti af og börn tengjast inn í verða sjálfkrafa barnaverndarmál. Ragna sagði að oft nægði inngrip barnaverndar til þess að opna augu foreldra fyrir því umhverfi sem þau væru að bjóða börnunum upp á. „Stundum eru foreldrar að ganga í gegnum skilnað eða að skilnaður á sér stað í kjölfar svona uppákomu. Það er boðið upp á úrræði fyrir karlmenn sem beita ofbeldi, en það er Karlmenn til ábyrgðar. Við bendum fólki á það úrræði og einnig á fjölskyldumeðferð ef fólk vill vinna í sínum málum og fá hjálp.“

„Í flestum þessara mála sem ég hef komið að verða börnin sjálf ekki fyrir ofbeldi heldur verða vitni að ofbeldi. Það kemur reyndar fyrir að börnin verða á milli þegar þau reyna að hjálpa til, en þá geta börnin verið komin í mjög hættulega stöðu.“

Börn eru missterk

„Það getur haft mikil áhrif á börn að verða vitni að ofbeldi inni á heimili, sérstaklega ef um endurtekin atvik er að ræða. Börn eru missterk. Sum börn hrista hlutina af sér, en önnur börn eru mjög viðkvæm. Stundum er líka eitthvað annað að gerast í lífi þeirra; þau eiga erfitt félagslega og síðan bætist ofbeldi heima fyrir ofan á. Það getur síðan orðið til þess að veröldin hrynur.

Í flestum tilvikum eru börn mjög sorgmædd og leið þegar þau upplifa þessar aðstæður. Þarna er um að ræða þeirra nánustu ættingja, sem þeim þykir vænt um og treysta á, sem eru að beita hvort annað ofbeldi. Það er mjög erfitt fyrir börn að horfa upp á það. Þau geta í kjölfarið lent í mikilli hollustuklemmu. Það eru því oft miklar tilfinningar í spilinu.“

Oft þegar lögregla og fulltrúi barnaverndar mætir inn á heimili er fólkið í miklu uppnámi. Ragna sagði að reiður einstaklingur hugsaði yfirleitt ekki rökrétt og því væri undir hælinn lagt hvort hægt væri að ræða við hann um hagsmuni barnsins. Hún sagði að það væri hins vegar sín reynsla að þegar foreldrar áttuðu sig á því hvað barnið væri búið að horfa upp á og hvernig barninu liði þá vildi það leggja sitt af mörkum til að því liði betur. Stundum stæðu foreldrar í þeirri trú að börnin væru sofandi eða að þau væru inni í herbergi og heyrðu ekki það sem gekk á. „Börn vakna og heyra oft meira en foreldrar gera sér grein fyrir. Börn draga sig hins vegar stundum í hlé og láta eins og þau séu sofandi. Það sem er verst er þegar börnin liggja ein inn í herbergi og hugsa hvað gerði ég rangt, pabbi hlýtur að vera svona reiður vegna þess að ég drakk ekki mjólkina mína o.s.frv.“

Foreldrar sem beita börn ofbeldi

Ein tegund ofbeldis gegn börnum er þegar átök verða milli foreldra og barna. „Þegar börn eru í mótþróa við foreldra og foreldrar eru að setja börnum mörk vegna þess að börnin eru hætt að hlusta á foreldra þá fara foreldrar stundum yfir mörkin og lenda í aðstöðu sem þau ætluðu sér ekki að lenda í og fara að beita ofbeldi.“

Ragna sagði að barnaverndarnefndum eða lögreglu bærust upplýsingar um slík mál með ýmsum hætti. Stundum hefðu foreldrarnir sjálfir samband við lögreglu vegna þess að þeir væru komnir á vissa endastöð og finndist þeir ekki ráða lengur við aðstæðurnar.

Ragna segir mikilvægt að gefa börnum tækifæri til að tjá …
Ragna segir mikilvægt að gefa börnum tækifæri til að tjá sig um ofbeldið sem þau urðu vitni að. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert