Dæmdar bætur vegna Pompei norðursins

Eldgos í Heimaey, árið 1973.
Eldgos í Heimaey, árið 1973. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt Vestmannaeyjabæ til að greiða Jóhannesi Þór Sigurðssyni 3,1 milljón kr. og Blámanni ehf., 184.000 kr. í skaðabætur vegna tjóns sem þeir urðu fyrir vegna uppgraftar mannvirkja, sem kallast Pompei norðursins, sem lentu undir gosefnum við eldgosið í Heimaey 1973.

Jóhannes er eigandi fasteignar við Nýjabæjarbraut sem stendur austast í Vestmannaeyjabæ. Við enda götunnar er hafinn uppgröftur mannvirkja sem lenti undir gosefnum við eldgosið í Vestmannaeyjum árið 1973. Uppgröfturinn hófst hafist í júní árið 2005 og er honum enn ekki lokið, að því er segir í málavöxtum Jóhannesar.

Þá segir að illa sé gengið frá svæðinu þannig að mikið vikurfok hafi verið yfir nálæga byggð. Eignir stefnenda, umrædd fasteign og tvær bifreiðar urðu illa úti vegna foks af uppgraftarsvæðinu, sem nefnt sé Pompei norðursins. Þá haf fasteignin orðið fyrir miklu tjóni eftir að uppgröfturinn hófst auk þess sem verulega sé farið að sjá á bifreiðunum vegna vikurfoksins, en þær hafi stóðu fyrir utan húsið.

Fram kemur, að stefnendur hafi ítrekað farið fram á við Vestmannaeyjabæ að ráðstafanir yrðu gerðar vegna foksins en stefndi hafi ekki orðið við þeim óskum. Nú sé svo komið að töluvert tjón hafi orðið á umræddum eignum sem rekja megi beint til uppgraftarins.

Vestmannaeyjabær byggir málsástæður sínr á því að framkvæmdir hafi verið grundvallaðar á gildandi aðalskipulagi sem hlotið hafi lögmæta meðferð og verið samþykkt af ráðherra. Í deiliskipulagi svæðisins sé svæðið afmarkað og ákvæði að finna sem fylgja skuli við framkvæmdir á svæðinu og hvernig það skuli vera frágengið og sé lögð áhersla á að takmarka eftir fremsta megni fok af svæðinu. Samkvæmt reglugerð um byggingarvinnustaði og mannvirkjagerð og skipulags- og byggingarlögum hvíli skyldur á framkvæmdaraðila og hafi stefndi ekki brotið gegn settum reglum við framkvæmdir og frágang á svæðinu. Bærinn hafi gert allar eðlilegar ráðstafanir til að hamla foki frá svæðinu og fylgt öllum skilyrðum sem sett hafi verið um framkvæmdir á svæðinu. Hafi framkvæmdir staðið yfir um hásumartímann en á öðrum árstímum hafi svæðið verið hulið nótum og uppgrafin hús seglum.

Í dómi héraðsdóms segir, að matsmaður hafi komist að þeirri niðurstöðu að rekja megi skemmdir á íbúðarhúsinu og bifreiðunum til vikurfoks frá uppgraftarsvæðinu. Þessi niðurstaða hafi ekki verið hrakin af hálfu bæjarins og telst því nægilega sannað að skemmdir á eignunum verði raktar til umrædds uppgraftar.

Þá segir að Vestmannaeyjabær hafi vissulega gert ráðstafanir til að hindra vikurfok af svæðinu og í því skyni hafi svæðið verið hulið netadræsum og uppgrafin hús seglum.

„Gögn málsins sýna hins vegar að á stórum svæðum voru netin rifin og lýstu íbúar í næsta nágrenni við svæðið yfir áhyggjum sínum við fyrirsvarsmenn stefnda vegna foksins. Fram kom á íbúafundi um uppbyggingu svæðisins að starfsmenn stefnda reyndu að fylla upp í opin svæði og hefta sandfok. Það væri hins vegar ekki alltaf hægt og óhjákvæmilegt að svona framkvæmdum fylgdi einhver röskun á jarðvegi. Kemur fram að bæjarstjóri stefnda hafi bent nágrönnunum á að yrðu þeir fyrir tjóni gætu þeir sótt rétt sinn til tryggingafélags stefnda. Umræddar framkvæmdir voru að frumkvæði og á ábyrgð stefnda og bar honum því að gera allar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar voru til þess að koma í veg fyrir að eignir í nágrenni uppgraftarsvæðisins yrðu fyrir skemmdum og í raun var honum það í lófa lagið. Þetta lét stefndi undir höfuð leggjast með þeim afleiðingum að eignir stefnenda urðu fyrir skemmdum sem sannanlega má rekja til uppgraftarins. Ber stefndi því skaðabóta- ábyrgð á því tjóni sem stefnendur urðu fyrir,“ segir í dómi Héraðsdóms Suðurlands.  

Auk þess að greiða Jóhannesi skaðabætur, þá er bænum gert að greiða honum 1.882.500 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti og 917.992 krónur vegna matskostnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert