Fjallgöngumanninum Leifi Erni Svavarssyni gekk vel að ganga upp í 7.700 metra hæð Everest-fjalls í gær. Þar hefur hann nú hvílt sig vel en í dag mun hann ganga upp í 8.300 metra hæð.
„Leifi hafði kviðið örlítið fyrir þessum degi en gangan frá 7.000 upp í 7.700 m. er löng og erfið. Almennt er reiknað með því að þessi ganga taki allt að 8 klukkustundir. Leifur fílaði sig hinsvegar vel í göngunni, var hraður og gangan tók því talsvert skemmri tíma en hann hafði áætlað. Veðrið var gott, logn og hlýtt fyrri hluta dags, þannig að Leifur gekk húfulaus og með dúngallan bundinn um mittið til að byrja með. En um kl. 13 byrjaði að hvessa og um kl. 15 var orðið bæði hvasst og skýað, en þannig virðist veðurmynstrið á fjallinu vera,“ segir á ferðabloggvef Leifs.
Þá segir að Leifur hafi verið kominn í tjaldið sitt í 7.700 metra hæð, búinn að borða vel og að hann ætlaði nú að hvíla sig vel. Í dag muni hann og félagi hans ganga áfram upp í 8.300 metra hæð.
„Þeir reikna með því að ganga með súrefni á morgun [í dag] og verða einnig með súrefni þann stutta tíma sem þeir leggja sig í 8.300 m. áður en þeir halda á sjálfan toppinn. Þeir taka eins lítið af búnaði með á morgun [í dag] eins og þeir komast af með, 2 frauðdýnur og aðeins einn svefnpoka sem þeir koma til með að liggja undir í dúngöllunum.“