Ólýsanlegt á toppi Everest

Ingólfur Geir Gissurarson á toppi Everest á þriðjudagsmorgun.
Ingólfur Geir Gissurarson á toppi Everest á þriðjudagsmorgun.

„Það er ólýsanleg tilfinning að standa þarna og horfa yfir,“ segir Ingólfur Geir Gissurarson, sem stóð á tindi Everest-fjalls síðasta þriðjudagsmorgun. Gangan var ekki án vandkvæða en í miklum bratta í 8.700 metra hæð sprakk þrýstijafnari súrefniskútsins og tóku þá við „ótrúlegar erfiðar“ 5-10 mínútur.

Ingólfur var staddur á nokkurs konar uppskeruhátíð í grunnbúðum þegar hann ræddi við blaðamann. Hann sagði gönguna upp fjallið hafa verið afar erfiða. „Þetta er það erfiðasta sem maður hefur gert í lífinu.“ Lagt var af stað á toppinn kl. 23 að staðartíma á mánudagskvöld. „Þá var farið yfir ísfallið, skriðjökul sem er eitt frægasta kennileitið hérna á Everest. Það er hrikalegt að labba um þetta, sem betur fer er alltaf farið að nóttu til því þá sérðu það ekki,“ útskýrir Ingólfur. „Þá er líka frost og hörkugaddur og þetta helst betur saman. Munur á hita á nóttu og degi getur verið 40-50 stig. Það eru sérstakir sjerpar sem leggja brautir um þetta og fara yfir þetta á hverjum degi því þetta er alltaf að hreyfast og færast úr stað og það hrynja kannski úr þessu 40-60 tonna stykki. Það er best að fara þetta í myrkri með ljós þannig að þú sjáir ekki hvað er fyrir ofan þig,“ bætir hann við. „Ísfallið er alltaf það sem menn óttast á fjallinu. Það er hættulegt og hefur verið að taka mannslíf.“

Gengu fram á látinn mann

Ingólfur segir að ferðin fram og til baka úr þriðju búðunum og upp á topp hafi aðeins tekið um 10 klukkustundir, sem sé með hraðara móti. „Það er ákveðið öryggi í því að keyra á þetta eins og þú getur, eins og að hlaupa maraþonhlaup upp fjall,“ segir hann. Skömmu eftir að hann var kominn upp fyrir Svalirnar svokölluðu, sem eru 8.400 metrum yfir sjávarmáli, varð hann fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að ganga fram á nýlátinn mann. „Hann var frá Bangladess og hafði líklega látist nóttina áður. Svona er þetta hér ef þú ert ekki í almennilegu standi hjá góðu fyrirtæki. Það eru margir sem fara þarna af kappi frekar en forsjá.“

Þrýstijafnari súrefniskútsins sprakk

Ingólfur og sjerparnir héldu áfram göngunni og segir hann að það hafi verið gríðarlega erfitt að taka fram úr fólki og hleypa fólki fram úr sér á þröngu einstigi. Línur liggi þarna um og hann hafi verið „húkkaður í tvöfaldri tryggingu.“ í miklum bratta. „Það má ekkert fara úrskeiðis því það er 60 gráðu halli,“ segir Ingólfur en síðan gerðist það, í 8.700 metra hæð og 40 stiga frosti, að þrýstijafnari súrefniskútsins sprakk vegna kulda. Hlutverk þrýstijafnarans er að stýra súrefnisflæðinu inn í grímuna sem nauðsynlegt er að bera. „Það varð uppi fótur og fit. Sem betur fer var einn af þremur leiðsögumönnunum, sem var staddur 15 metrum fyrir neðan mig, með varaþrýstijafnara en þetta voru ótrúlegar erfiðar  5-10 mínútur sem maður var þarna án súrefnis. Ég fann strax að ég fékk ekki nægt súrefni en sjerparnir skiptu um tækið á staðnum í þessum mikla bratta.“

Hann segir að það sé varla hægt að lýsa því hvað fór um huga hans þessar mínútur, þetta hafi verið sérstaklega ógnvænlegt í ljósi þess að aðeins stuttu áður höfðu þeir gengið framhjá líkinu. „Þetta var afskaplega óþægilegt. Það er ekkert sem þú getur gert í 8.700 metra hæð án súrefnis, maður deyr einfaldlega mjög fljótt,“ segir Ingólfur. Spurður hvernig hann hafi brugðist við segist hann hafa lagst niður á meðan tækið var lagað, dregið djúpt andann og reynt að halda loftinu eins lengi og hann gat í lungunum. „Það er 33% af súrefni þarna miðað við sjávarmál. Síðan lagaðist þetta sem betur fer og við héldum förinni áfram.“

Ekki löngu eftir þetta var Ingólfur kominn á toppinn. „Þetta er ólýsanlegt. Þú ert hátt yfir öllu og sérð bogann á jörðinni. Það eru fjögur önnur fjöll sjáanleg í kring og maður sér pýramídaskuggann fræga. En það var gríðarlega hvasst, að minnsta kosti 30 hnútar og 40 stiga frost þannig að það var ekki hægt að gera mikið.“  Ingólfur var á toppnum í rúmar 20 mínútur, tók fjölda mynda og síðan hófst gangan niður.

Tvö ár að fá leyfi hjá konunni

Eins og fyrr segir er Ingólfur nú staddur í grunnbúðunum. „Það má segja að maður sé allt að því hólpinn. Ég á reyndar þriggja daga göngu eftir að flugvellinum og legg af stað í fyrramálið.“ Hann flýgur til Katmandú og gerir ráð fyrir að koma til Íslands á miðvikudaginn. Spurður hvað taki þá við segist Ingólfur ætla að slaka á þar sem hann finni fyrir gífurlegri þreytu. Hvað frekari fjallgöngur varðar þá segist hann ekki vita hvaða verkefni hann takist næst á við. „Það tók mig tvö ár að fá leyfi hjá konunni að fara þetta,“ segir hann í léttum tón. Hann komist í það minnsta ekkert hærra en hvað aðra tinda yfir 8.000 metra hæð varði þá séu þeir flestir hættulegri en Everest þannig að hann láti eflaust vera að hugsa um að klífa þá.

Ingólfur segir Everest-gönguna það erfiðasta sem hann hefur gert í …
Ingólfur segir Everest-gönguna það erfiðasta sem hann hefur gert í lífinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert