Söngglaður nýbúi breiðir úr sér

Svartþröstur í Laugardal
Svartþröstur í Laugardal mbl.is/Ómar Óskarsson

Þegar Bítlarnir ortu um söng svartfugls að nóttu árið 1968 var yrkisefnið Íslendingum framandi því fyrsti svartþrösturinn flæktist hingað ekki fyrr en sumarið '69. Í vor hafa svartþrestir hins vegar verið talsvert áberandi enda syngja þeir af mikilli list og eru smám saman að leggja undir sig landið.

Svartþrestir eru miklir söngfuglar og hreykja sér gjarnan af hæstu trjágreinum eða húsþökum þegar þeir þenja raust sína. Þar sem þeir láta í sér heyra stela svartþrestir því jafnvel senunni af skógarþröstum sem þó eru elskaðir söngfuglar af mörgum.

Dæmigerður skógfugl með einkennandi söng

„Þegar ég heyrði svartþrastarsöng í bakgrunninum á tveimur, aðskildum sjónvarpsviðtölum, þá vissi ég að þeir væru komnir til að vera,“ segir Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur í gamansömum tón. „Þessi söngur er svo einkennandi og þeir syngja lengi. Þeir byrja snemma, jafnvel í febrúar og syngja svo fram eftir sumri.“

Svartþrestir syngja gjarnan í ljósaskiptunum, snemma að morgni og langt fram á kvöld, en eru hljóðir yfir miðjan daginn.

Þeim sem unna fuglasöng eru svartþrestir því kærkomin viðbót í fuglafánu landsins, en tilvist þeirra hér má ekki síst þakka aukinni trjárækt enda eru svartþrestir dæmigerðir skógfuglar. Þeir eru um 25 cm, ívið stærri en skógarþrestir sem eru 21 cm. Karlfuglinn er allur svartur, með skærgult nef og gulan augnhring, en kerlan er hreint ekki svört heldur dökkbrún, oft með ljósari bringu.

Fyrir áhugasama sem vilja glöggva sig á söng svartfugla má hlýða á hljóðdæmi hér að neðan:

Svipað munstur og hjá starranum

Svartþrestir létu fyrst á sér kræla sem stakir flækingar í Reykjavík og héldu sig þá einkum í skógi Öskjuhlíðar, en fyrst er vitað til þess að þeir hafi komið til landsins í hóp vorið 1999 og hröktust þá líklega undan veðri og vindum yfir hafið en hafa nú sest hér að og eru komnir til að vera.

Þeim fer fjölgandi ár frá ári og varpsvæði þeirra stækkar sem því nemur. Þeir verpa nú allt frá Suðurnesjum inn í Kjós og í vor sást fyrsta svarþrastarparið við hreiðurgerð á Selfossi. Þá hafa nokkur pör verið í Kjarnaskógi í Eyjafirði. Jóhann Óli segir líklegt að þeir muni á endanum verpa um allt land rétt eins og starrinn, sem gerði sig fyrst heimakominn hér um 1960.

Skógarsnípa og krossnefur en fáir gráþrestir

Skógræktarfélag Íslands fjallaði um það í Skógriti sínu árið 1992 að aukin trjárækt gæti haft áhrif á fjölda og útbreiðslu fugla hér á landi. Sex tegundir fugla voru taldar líklegri landnemar hér en aðrar og var svartþröstur ofarlega á blaði.

Það hefur gengið eftir og sömuleiðis spá Skógræktarfélagsins um landnám tegunda eins og skógarsnípu og krossnefs, þótt þær séu ekki eins áberandi og svartþrösturinn. Árið 1992 var hins vegar einnig talið líklegt að bókfinka og fjallafinka settust hér að en það hefur ekki ræst, enn sem komið er. Gráþröstur, frændi svartþrastarins, hefur heldur ekki náð sér á strik hér á landi eins og spáð hafði verið.

Jóhann Óli segir að gráþrestir hafi stöku sinnum verpt hér en ekki náð fótfestu, þótt þeir hafi alla burði til þess eins og svartþrösturinn. Á hinn bóginn hafa tegundir eins og glókollur, barrfinka og eyrugla unnið sér þegnrétt sem varpfuglar.

Þurfum að huga að sjó- og mófuglum

Þessar breytingar á dýralífinu samhliða auknum trjágróðri og hlýnandi loftslagi eru mörgum gleðiefni, en eins og alltaf eru tvær hliðar á málinu. „Á móti kemur að það eru líka tegundir sem fækka og hverfa,“ bendir Jóhann Óli á.

Það eru einkum sjófuglastofnar sem látið hafa á sjá, sennilega vegna hlýnandi loftslags. Haftyrðillinn er dæmi þar um. Hann er minnsti svartfuglinn við Atlantshaf og hafði um aldir varpstað í Grímsey en hætti varpi hér á landi á 10. áratugnum og er nú aðeins sjaldséður gestur hér. Öðrum svartfugli, stuttnefjunni, fer mjög fækkandi og svo má auðvitað nefna lundann sem enn er algengasti fugl við Íslands strendur en hefur þó átt undir högg að sækja.

„Svo vilja sumir meina að skógræktin hafi áhrif á mófuglana, lóu og spóa,“ segir Jóhann Óli. Hann segir þó enn ekki farið að þrengja verulega að þessum tegundum en nauðsynlegt sé að hafa þá í huga þegar skógrækt sé skipulögð.

„Við berum gríðarlega mikla ábyrgð á þessum fuglum, lóu og spóa. Þessar tegundir sem eru að nema hér land eru mjög algengar í öðrum löndum, en stór hluti þessara mófuglastofna verpir hér hjá okkur.“

Vonar að vorið 2011 sé ekki að endurtaka sig

Þetta vorið gæti enn brugðið til beggja vona hjá varpfuglum landsins að sögn Jóhanns Óla, en útlitið er ekki gott í kuldanum fyrir norðan. „Vonandi verður þetta ekki eins og 2011 þegar voraði mánuði seinna en venjulega og varpið varð lélegra. Það var alveg hræðilegt. Ég hef aldrei séð eins lélegt varp hjá mörgum og þá.“

Aðspurður segir Jóhann Óli að mikil átthagatryggð sé hjá fuglum og þeir færi sig sjaldan milli landshluta til að forðast slæma tíð heldur sleppi því frekar að verpa. „Það á eftir að koma í ljós hvernig þetta verður, veðrið skiptir svo miklu máli.“

Kerlur svartþrasta eru í reynd ekki svartar heldur dökkbrúnar á …
Kerlur svartþrasta eru í reynd ekki svartar heldur dökkbrúnar á lit. mbl.is/Ómar Óskarsson
Glókollurinn er einn af nýjustu varpfuglum Íslands sem virðist dafna …
Glókollurinn er einn af nýjustu varpfuglum Íslands sem virðist dafna afar vel hér á landi og fjölga sums staðar mjög hratt. mbl.is/Ómar Óskarsson
Auðvelt er að þekkja krossnef á goggnum sem gengur í …
Auðvelt er að þekkja krossnef á goggnum sem gengur í kross og hefur hann orpið hér reglulega frá 2008. mbl.is/Jóhann Óli Hilmarsson
Skógarsnípa hefur fest sig í sessi hér á landi.
Skógarsnípa hefur fest sig í sessi hér á landi. mbl.is/Jóhann Óli Hilmarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert