Gat ekki tekið við gripunum

Fornleifafræðingur að störfum við uppgröft.
Fornleifafræðingur að störfum við uppgröft. Valdís Þórðardóttir

„Fornleifaverndin sem sá um eftirlitið á þessum tíma, var fjársvelt og fámenn, og við komumst ekki yfir öll verkefnin sem þurfti að sinna. Ekki er hægt að neita því. Hins vegar er ýmislegt gott og rétt í þessari skýrslu en annað sem þarf að leiðrétta,“ segir Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar um stjórnsýsluúttekt á stöðu og þróun fornleifarannsókna, sem Brynja Björk Birgisdóttir vann fyrir menntamálaráðuneytið.  

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að um 150.000 gripum, sem fundist hafa við fornleifauppgröft hér á landi á undanförnum árum, hefur ekki verið skilað til varðveislu. Þeir séu enn í vörslu þeirra sem grófu þá upp. 

„Það er ekkert ólöglegt við þetta því samkvæmt veitingu leyfa til fornleifafræðinga mega þeir hafa gripina í sínum fórum í fimm ár eftir að rannsókn lýkur, á þeim tíma er verið að rannsaka gripina,“ segir Kristín Huld og bætir að ekki sé örugg tala á fjölda þessa gripa.

Í byrjun árs 2012 ræddi fornleifaverndin bæði við fornleifafræðingana og Þjóðminjasafnið og setti þær kröfur að þeir fornleifafræðingar sem væru með gripi í fórum sínum, fengju ekki leyfi til fornleifarannsókna, nema þeir semdu við Þjóðminjasafnið um skil á gripunum. Safnið gat ekki tekið á móti þeim á þeim tíma og því var samið um að þeir yrðu enn í vörslu fornleifafræðinga, segir Kristín Huld. 

„Þetta er flókið mál, bæði þarf að efla Þjóðminjasafnið svo það geti tekið á móti gripunum, og efla okkur til að sinna öllu því lögboðna hlutverki sem okkur er ætlað eftir að Húsafriðunarnefnd og Fornleifavernd ríkisins voru sameinaðar í Minjastofnun Íslands í byrjun árs 2013,“ segir Kristín Huld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert