Guðni Páll heillaður af umhverfinu

Guðni Páll Viktorsson.
Guðni Páll Viktorsson. Ljósmynd/Einar Björn Einarsson

Guðni Páll Viktorsson kajakræðari lagði upp frá Kalmarsvík á Akranesi í morgun en hann hefur verið veðurtepptur þar síðustu þrjá daga. Er þetta fimmtándi róðraleggur hans á hringferðinni um Ísland til styrktar Samhjálp.

Á vef Kayakklúbbsins segir að næstu dagar lofi góðu, bæði til lofts og sjávar. Nú rói Guðni Páll um fallegt svæði, eyjarnar og skerin undan Mýrum sem hafi undanfarin ár verið vinsælt róðrasvæði. Hann sé heillaður af umhverfinu og sé jafnvel að hugsa um að eyða meiri tíma þarna vegna stórbrotins náttúrulífs. „Allar Mæjorkur heimsins standa fölar við samanburðinn,“ segir á vefnum.

Allt hafi gengið vel í dag en aftur á móti sé báturinn þunglestaður og risti dýpra og því sé hraðinn ekki eins mikill og vanalega. Þá hafi Langhelgisgæslan haft samband við hann og varað við að það gæti snögghvesst vegna lægðarmyndunar á Grænlandssundi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka