Hagar áfrýja dómi til Hæstaréttar

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Arion banka af kröfu Haga um að fá endurgreiddar tæplega 640 milljónir króna vegna gengistryggðra lána sem Hagar tóku hjá bankanum. Hafa stjórnendur Haga ákveðið að áfrýja dómnum til Hæstaréttar.

Í mars 2012 tók stjórn Haga ákvörðun um að höfða dómsmál á hendur Arion banka hf. til að fá skorið úr um stöðu sína vegna endurútreiknings á gengistryggðum lánum félagsins hjá bankanum, sem greidd voru upp í október 2009.

Hagar höfðu áður fengið greiddar 515 milljónir króna vegna endurútreiknings bankans en niðurstaða lögfræðiálits gaf til kynna að Hagar hf. ættu enn frekari kröfu á hendur bankanum, samkvæmt upplýsingum frá Högum.

 Í niðurlagi rökstuðnings héraðsdómara segir að Hagar leiti dóms sem myndi raska jafnvægi milli of- og vangreiðslu í réttarsambandi málsaðila. Slík niðurstaða sé andstæð tilgangi almennra meginreglna um endurgreiðslu ofgreidds fjár.

Í tilkynningu frá Högum í mars 2012 kemur fram að miðað við útreikninga sem KPMG vann fyrir Haga telur félagið sig eiga rúmar 824 milljóna króna kröfu á Arion banka.

Í kjölfar niðurstöðu dóms Hæstaréttar í máli nr. 600/2011, sem kveðinn var upp 15. febrúar 2012, létu Hagar KPMG vinna fyrir sig lögfræðiálit og var það niðurstaða þess  að Hagar ætti enn frekari kröfu á hendur Arion banka vegna lánanna en Arion banki h tilkynnti Högum, með bréfi dagsettu 12. mars 2012, að bankinn áliti sem svo að dómurinn hafi takmarkað fordæmisgildi og töldu því að Hagar ætti ekki rétt til frekari endurútreiknings lánanna.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka