„Nánast allt byggt á misskilningi“

Samál segir nánast alla umfjöllun dr. Guðbjartar Gylfadóttir í bréfi …
Samál segir nánast alla umfjöllun dr. Guðbjartar Gylfadóttir í bréfi til umhverfis- og auðlindaráðherra byggða á misskilningi. Af vef Alcoa

„Í dag hefur á vefsíðum flogið hátt bréf Guðbjartar Gylfadóttur, íslensks starfsmanns Bloomberg í New York, til Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfisráðherra. Í bréfi sínu heldur Guðbjört því fram að áliðnaður sé vonlaus grein og allt sé þar á fallandi fæti.  Þrátt fyrir að vinna hjá „fyrirtæki sem hefur nær allan sinn hagnað af því að selja upplýsingar“ þá má draga þá eina ályktun að greinarhöfundur hafi ekki skilið þau gögn sem hún notar til að komast að niðurstöðu.“

Svo segir í færslu á vef Samáls, samtaka álframleiðenda á Íslandi, í dag. Þar eru tíu atriði í bréfi Guðbjartar hrakin.

Sagt er að það sé alrangt sem Guðbjört heldur fram um að það borgi sig ekki að framleiða meira ál í heiminum í bili þar sem áætlað sé að notkun áls aukist um 15 milljón tonn á næstu 4-5 árum.

Þvertekið er fyrir að Alcoa tapi á álframleiðslu sinni og því haldið fram að höfundurinn hafi annaðhvort ekki lesið uppgjör Alcoa eða þá ekki skilið það.

Kaupendur hlutabréfa ósammála Guðbjörtu

Þá segir að kaupendur á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum virðist ósammála niðurstöðum Guðbjartar þar sem verð hlutabréfa í Century Aluminium, móðurfélagi Norðuráls, hafi hækkað um 30% í maí.

Þá segir Samál að Alcoa framleiði 4,2 milljónir tonna af áli á ári en ekki 30 milljón tonn, líkt og fram komi í greininni. „Það munar 26 milljónum tonna og augljóst að greinarhöfundur misskilur algerlega þær upplýsingar sem verið er að skoða,“ segir einnig.

Þá segir að Alcoa sé ekki að draga úr framleiðslu um 2-3 milljónir tonna „[E]nda virðist höfundur ekki hafa minnstu hugmynd um það hvað grafið sem hún er að lesa sýnir.  Samkvæmt Alcoa mun fyrirtækið auka framleiðslu um 15 þúsund tonn á næsta ársfjórðungi,“ segir í grein Samáls.

Byggt á misskilningi og þekkingarskorti

„Grafið sem vitnað er í er mikið notað í áliðnaði.  Allir sem eitthvað fylgjast með og þekkja áliðnað kunna góð skil á því.  En ekki höfundur greinarinnar sem telur sig geta lesið út úr því eitthvað um framleiðslumagn Alcoa.  Grafið segir nákvæmlega ekkert um það heldur er þetta kostnaðarlínurit sem sýnir kostnað við framleiðslu áls á heimsvísu.  Þannig  eru um 30 milljón tonn í heiminum framleidd með tilkostnaði sem er undir 2.000 dollurum. Álverið með lægsta framleiðslukostnað í heiminum framleiðir tonn af áli fyrir 1.400 dollara.  Það er því ekki um það að ræða að það kosti 1.400 dollara að framleiða ekkert – það er misskilningur hjá höfundi greinarinnar. Reyndar byggir nánast öll umfjöllun hennar í greininni á misskilningi og þekkingarskorti sem er ótrúlegur miðað við menntun höfundar,“ segir á vef Samáls.

Ennfremur segir að Alcoa sýni að þeir sem framleiðandi séu að reyna að bæta samkeppnisfærni sína með því að loka óhagkvæmum einingum og fjárfesta í hagkvæmari rekstrareiningum. Gömlum álverum í Evrópu sé meðal annars lokað með þetta að sjónarmiði.

Áldósir eins umhverfisvænar og umbúðir geta verið

„Rétt er að fagna umhverfisvitund höfundar sem telur það vinnuveitanda sínum til tekna að nota ekki dósir heldur niðurbrjótanleg  glös. Það er þó líklega frekar uppgjöf fyrir því að samstarfsmenn höfundar hafa hent dósum í ruslið í stað þess að nota endurvinnsluílátin.  Áldósir eru nefnilega eins umhverfisvænar og nokkrar umbúðir geta verið. Lítið mál er að endurvinna þær og ef höfundur kemur dósinni sinni í endurvinnslu eru allar líkur á því að innan 60 daga sé einhver annar búinn að drekka annan gosdrykk úr dós sem unnin er þeirri fyrri,“ segir í grein Samáls.

Þar segir einnig að ál hafi jafnframt verið eftirsótt í bílaiðnaði til að draga úr eldsneytisnotkun og þar með gróðurhúsaáhrifum. Svipaða sögu megi segja af áli og umbúðaiðnaði þar sem matvara geymist betur í álfóðruðum umbúðum og það hafi jákvæð umhverfisáhrif.

4.500 manns í niðurgreiddum störfum af Vinnumálastofnun

„Höfundur vísar einnig í skrif Andra Snæs Magnasonar þar sem spurt er hvaðan 5.700 ný störf hafi komið frá árinu 2011, - á tímum þegar nánast engar álvers eða virkjunarframkvæmdir hafa farið fram. Í því sambandi má benda á að um 4.500 manns eru í störfum sem eru að hluta eða öllu leiti greidd niður af Vinnumálastofnun,“ segir í lok færslunnar á vef Samáls sem finna má í heild sinni hér.

Frétt mbl.is - „Eitthvað annað“ mun arðbærara en álið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka