„Ég skrifaði grein sem mér fannst taka á svari Samáls ,“ segir Guðbjört Gylfadóttir. „Ég myndi vilja fara í gegnum þau atriði sem Samál teflir fram hvert fyrir sig:
Í 1. atriðinu fullyrðir Samál að búist sé við að eftirspurn eftir áli aukist um 15 milljón tonn á næstum fjórum til fimm árum. Í fréttatilkynningu frá Alcoa þann 1. maí segir að félagið hafi ákveðið, til að viðhalda samkeppnishæfni félagsins, að nýta ekki 24% af framleiðslugetu sinni þar sem heimsmarkaðsverð á áli hafi lækkað frá 2011.“
Guðbjört vísar í aðra grein frá Bloomberg þar sem segir að lækkandi álverð og hækkandi orkuverð hafi þurrkað út mikið af hagnaði álfyrirtækja, sem hafi neitt Alcoa og Norsk Hydro til að skera niður framleiðslugetu sína.
„Í 2. atrðiði gagnrýni Samáls á greinina segir að Alcoa tapi ekki á álframleiðslu. Ég vísa aftur í fréttatilkynningu félagsins sjálfs þar sem þeir segjast ætla að draga úr framleiðslu sem nemur 24% vegna lækkandi heimsmarkaðsverðs,“ segir Guðbjört.
Um 3. atriðið segir hún að Alcoa nefni sjálft lækkandi verð á áli, en að hún hafi ekki kynnt sér hlutabréfaverð Century Aluminum, móðurfélags Norðuráls, og geti því ekki að sinni rætt hækkun á verði hlutabréfa þess, en segir að þar geti margir þættir komið til.
4. atriði gagnrýni Samáls segir Guðbjört í raun sama atriði og atriði 5 og 6, en segir rétt að hún hafi ekki lesið rétt úr grafi sem hún vísaði í. „Rökin sem ég var að reyna að koma á framfæri voru hins vegar þau að Alcoa er að draga úr framleiðslusinni um nærri fjórðung. Ég veit ekki hvaðan Samál hefur fullyrðingu sína um að Alcoa muni auka framleiðslu sína um 15 þúsund tonn, en það er frekar lítið samanborið við samdrátt í framleiðslu um milljón tonn. Ég hvet Samál til vísa í gögn máli sínu til stuðnings, sem og alla sem taka þátt í umræðunni,“ segir Guðbjört.
Hvað varðar 7. atriðið segir Guðbjört áhugavert að Alcoa sé að draga úr framleiðslu um 24% að Kínverjar séu að auka framleiðslu sína, auk þess sem til stendur að opna ný álver Alcoa í Sádí-Arabíu.
„Í 8. lið fagna þeir umhverfisvitund minni og koma fram með getgátur um vinnuveitanda minn, sem eru með öllu óstuddar, þannig að því atriði svara ég ekki.
9. atriðið er staðhæfing en ekki gagnrýni á greinina mína og þær greinar sem ég vísa í í minni grein taka ekki undir þá staðhæfingu sem þeir setja fram. Þarna væri gott hjá þeim að setja fram gögn máli sínu til stuðnings,“ segir Guðbjört.
Í 10. lið gagnrýnir Samál skrif Andra Snæs Magnasonar og virðast ósammála staðhæfingum hans, en Guðbjört ekki að öllu leyti ljóst hvort það sem þeir segja um Vinnumálastofnun fer saman við það sem Andri Snær er að segja, en þykir betra að Andri Snær svari fyrir þá gagnrýni, sem hann hefur þegar gert á vef mbl.is.
„Að lokum finnst mér tilefni til að minnast á hvernig Samál, sem koma fram nafnlaust þar sem höfundar er ekki getið, virðast kjósa að fara í manninn en ekki málefnin, allavega að nokkru leyti og einkum með þessari fullyrðingu, sem tekin er beint úr athugasemdum Samáls: „Reyndar byggir nánast öll umfjöllun hennar í greininni á misskilningi og þekkingarskorti sem er ótrúlegur miðað við menntun höfundar,““ segir Guðbjört.
Færslu Guðbjartar á Facebook má finna hér.
Frétt mbl.is: „Eitthvað annað“ mun arðbærara en álið