„Jón var með leið í sambandi við að flytja inn fíkniefni. Ási átti fíkniefni í Danmörku og síðan ákvað Ási að nota þessa leið sem Jón bauð upp á.“ Þetta sagði Jónas Fannar Valdimarsson fyrir dómi í morgun um Jón Baldur bróður sinn. Báðir eru þeir ákærðir fyrir aðild að innflutningi á amfetamíni. Jónas játar að hluta en Jón Baldur neitar alfarið sök.
Boðið var upp á bræðrabyltu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun, en þar fór fram aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn sjö einstaklingum. Í fyrri ákæruliðnum er þeim Jónasi Fannari, Jóni Baldri og Símoni Páli Jónssyni gefið að sök skipulagning og innflutningur á rúmum 19 kílóum af amfetamíni sem sendar voru frá Kaupmannahöfn til Íslands í janúar.
Meiri samhljómur var með framburði þeirra Símonar Páls og Jónasar Fannars en Jóns Baldurs og Jónasar Fannars. Varð það til þess að verjandi Símonar spurði Jón Baldur: „Er Jónas nánari Símoni en þér?“ Jón Baldur sagði reyndar svo ekki vera en bætti við: „Jónas og Símon eru að ljúga upp á mig. Ég sagði frá frændanum og Ása, þá skýrist myndin. Hvort myndir þú benda á mig, Ása morðingja eða útlendingana? Allt sem borið upp á mig er lygi. Allt sem bróðir minn er að segja er lygi. Ég er eini maðurinn í málinu sem segir sannleikann. Enginn annar hafði pung í það.“
Sá sem Jón Baldur nefnir Ása morðingja er Ársæll Snorrason en hann var fyrir dómi í morgun sagður höfuðpaurinn í málinu. Frændinn er svo tollvörður sem handtekinn var í tengslum við málið en var ekki ákærður. Jón Baldur viðraði reyndar undrun sína á því að tollvörðurinn hefði ekki verið ákærður. „Hann virðist ætla að sleppa með þetta allt," sagði hann. „Ástæðan fyrir því að farið var í þetta er að frænda Símonar, sem ætlar að sleppa við þetta mál, vantaði peninga og hann bað um þetta.“
Þau atriði í málinu sem eru óumdeild eru, að Símon Páll og Jón Baldur fóru til Kaupmannahafnar. Fíkniefni bárust og voru í íbúð þeirra þar. Þeir fóru saman og keyptu umbúðir utan um fíkniefnin, hrísgrjónapotta. Jón Baldur fór fyrr heim en áætlað var og Jónas Fannar og Dainius Kvedaras, er ákærður fyrir hlutdeild, komu út. Símon Páll sendi svo efnin í póstsendingum til Íslands og Jónas Fannar og Kvedaras fóru með honum á pósthúsið.
Með orðum Símonar Páls gerðist þetta svona: „Ég var beðinn um að fara til Danmerkur og senda kassa heim. Átti að fá fyrir það ákveðinn pening. Ég fer út með Jóni Baldri og það gengur á ýmsu. Við erum að fá okkur bjór og annað. Við fórum og versluðum dótarí. Förum svo í íbúðina, man ekki hvort það er á þriðjudegi eða miðvikudegi. Þá fer ég út á bar og er í burtu í tvo tíma að beiðni Jóns Baldurs. Þegar ég kem til baka er þetta frágengið. Fékk þá blað með fyrirtækjanöfnum og kennitölum þeirra, handskrifað blað. Ég bjó til límmiða eftir og límdi á kassana.“
Spurður nánar um þátt Jóns Baldurs sagði Símon Páll: „Hann er í samskiptum við einhvern, greinilega. Ég hafði ekki hugmynd um það á sínum tíma. Hann bað mig um að gera þetta og sá fyrir peningum.“
Símon Páll sagðist hafa átt að fá 800 þúsund krónur fyrir að senda pakkana. Hann var spurður að því hvaðan hann hafi fengið fyrirskipanir og stóð ekki á svari: „Frá Jóni Baldri.“
Framburður Jóns Baldurs var töluvert frábrugðin og var honum mikið niðri fyrir. Hann hins vegar viðurkenndi að hafa farið til Kaupmannahafnar með Símoni Páli og sagðist þar hafa aðstoðað hann við að kaupa potta. „Mér var tilkynnt að það ætti að senda tvö til þrjú kíló af amfetamíni. Það er búið að hafa mig að fífli og nota góðvild mína,“ sagði Jón Baldur.
Hann lýsti aðdraganda ferðarinnar á þennan veg: „Bróðir minn og Símon komu heim til mín. Þar er einstaklingur sem ekki hefur verið nefndur. Símon var búinn að segja mér tveimur mánuðum áður frá þessari leið sinni og frænda hans. [...] Og Símon var að leita að fíkninefnum úti til að senda heim."
Jón Baldur segist einnig hafa farið með bróður sínum að hitta Ársæl Snorrason sem hafi átt fíkniefni í Danmörku. Eftir það hafi hann ekki haft nein afskipti af málinu fyrr en nokkrum dögum fyrir ferðina út. Þá hafi hann verið beðinn um að fara út með Símoni til að aðstoða hann. „Bróðir minn komst ekki og ég var beðinn um að fara. Ég tók þá slæmu ákvörðun. Við Símon erum engir vinir og það var ekki að minni beiðni að ég fór. Við höfðum ekki ferðast saman áður og gerum sannarlega ekki aftur.“
Aðstoðin fólst meðal annars í því að sækja amfetamín. „Á þriðjudeginum biður hann mig að ná í þessi þrjú kíló. Ég tók á móti þeim og rétti Símoni. [...] Símon bað mig að fara og taka á móti henni [töskunni]. Hann vildi ekki láta sjá sig.“
Dómari spurði hann út í þessa afhendingu efnanna og hvort þetta hafi verið þau 19 kíló sem ákært er fyrir. Jón Baldur sagði svo ekki vera. Þó hann hafi ekki séð efnin hafi hann fundið að taskan vó ekki 19 kíló.
Jón Baldur hafnaði því algjörlega að hafa komið að skipulagningu málsins eða yfirleitt að hann hafi átt einhvern þátt í innflutningnum sjálfum. „Ég er fjögurra barna faðir og átti að fara útskrifast í maí [úr matsveinanámi]. Ég hefði aldrei farið að taka þátt í svona.“
Jónas Fannar hafnaði því einnig að hafa komið að skipulagningu innflutningsins. Hann sagði bróður sinn hafa beðið sig um að koma með á fund með Ársæli, og hann hafi keypt flugferðir og hótelgistingu með sínu greiðslukort. Og þrátt fyrir að hafa haft vitneskju um ráðabruggið hafi hann ekki komið að skipulagningunni. „Það var aldrei talað um að ég gerði nokkuð.“
Spurður hvort hann ætti að njóta góðs af þessum innflutningi sagði Jónas Fannar: „Jón talaði um að hann myndi greiða mér það sem hann skuldaði mér ef þetta gengi upp.“
Þá var upplýst um það að Jónas Fannar sagði við skýrslutökur hjá lögreglu að Jón Baldur hefði fjármagnað innflutninginn og átt fíkniefnin. Jónas Fannar sagðist hafa sagt það til að tryggja sér öryggi. Hann hafi ekki viljað segja frá höfuðpaurnum í málinu. Það sé hins vegar í lagi núna þar sem hann er látinn.
Jónas Fannar fór einnig til Kaupmannahafnar, eftir að Jón Baldur sneri heim, og sagði hann þá ferð ekki tengjast umræddum innflutningi. Hann hafi greitt þá ferð sjálfur og ætlaði aðeins að skemmta sér vel yfir helgi með Símoni Páli, sem sé vinur hans. Jón Baldur var einnig spurður út í það hvers vegna Jónas Fannar kom til Kaupmannahafnar. „Hann ætlaði að fara þarna út til að halda Símoni félagsskap. Svo gengur hann inn í aðstæður sem hann ræður ekki við, karlgreyið.“
Aðalmeðferðin heldur áfram á morgun. Verður þá tekin skýrsla af lögreglumönnum sem komu að rannsókn málsins og saksóknari og lögmenn flytja málið. Að því loknu verður málið dómtekið.