Fékk 18 mánaða fangelsisdóm fyrir fjárdrátt

Haukur Þór var dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir fjárdrátt.
Haukur Þór var dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir fjárdrátt. mbl.is

Hæstiréttur staðfesti í dag átján mánaða fangelsisdóm fyrir fjárdrátt sem héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp yfir Hauki Þór Haraldssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Landsbankanum. Dómurinn var kveðinn upp í héraði 25. júní 2012 og hafði þá komið fyrir dóminn þrisvar sinnum, en Hæstiréttur hafði áður ógilt dóm héraðsdóms í tvígang. Hann hafði þá verið sýknaður eftir fyrstu meðferð málsins en dæmdur í tveggja ára fangelsi í annað skiptið.

Í málinu var Haukur Þór ákærður fyrir að hafa dregið sér 118.544.950 krónur, sem hann lét millifæra af innlendum gjaldeyrisreikningi í eigu NBI Holding Ltd., félags á vegum bankans, yfir á eigin bankareikning. Daginn eftir lét Haukur svo millifæra sömu fjárhæð yfir á annan bankareikning í sinni eigu.

Fjallað var um málið á mbl.is þann 25. júní 2012 þegar dómur héraðsdóms var upp kveðinn og þar kom fram að málið hafi átt sér langan aðdraganda og að upphafið megi rekja til bréfs sem skilanefnd Landsbanka Íslands hf. ritaði efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra þann 26. nóvember 2008. Í því óskaði nefndin eftir því að efnahagsbrotadeildin rannsakaði millifærslur sem að mati bankans voru taldar óeðlilegar. Lögregla gaf svo út ákæru í kjölfar rannsóknarinnar en Haukur hélt því ávallt fram að hann hafi ekki ætlað að slá eign sinni á féð, heldur koma því í öruggt skjól.

Ákærði var dæmdur til að greiða 2/3 hluta áfrýjunarkostnaðar málsins, sem í heild nemur 1.384.810 krónum, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 1.255.000 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert