Hafa þegar endurreiknað 7200 bílalán

mbl.is

Íslandsbanki hefur endurreiknað 7200 bílalán og kaupleigusamninga í samræmi við dóma Hæstaréttar en í gær dæmdi Hæstiréttur að Landsbankanum hefði verið óheimilt að reikna seðlabankavexti afturvirkt á gengistryggð bílalán og kaupleigusamninga.

„Eftir fyrri dóminn, sem féll í febrúar 2012, var mörgum spurningum enn ósvarað um það með hvaða hætti endurreikningur skyldi framkvæmdur og til hvaða lána dómurinn tæki. Bankarnir, með samþykki Samkeppniseftirlits, völdu 11 dómsmál til að svara þeim álitamálum sem enn stóðu eftir dóminn.

Fjögur þeirra voru á vegum Íslandsbanka. Seinni dómurinn, sem féll í október, víkkaði fordæmisgildi fyrri dómsins og skýrði hvernig lán sem hafa verið í skilum skyldu endurreiknuð. Í kjölfarið tók Íslandsbanki af skarið og féll frá dómsmálum til að flýta endurútreikningi. Mat bankinn það svo að dómarnir tækju einnig til skammtímalána, svo sem bílasamninga, og ákvað því að bíða ekki eftir frekari dómum.

Ergo, fjármögnunarþjónusta Íslandsbanka, hóf strax endurútreikning og hefur í dag endurreiknað 7200 bílalán og kaupleigusamninga. Íslandsbanki er því vel á veg kominn með endurútreikning þessara samningsforma í samræmi við kvittanadóma Hæstaréttar,“ segir í tilkynningu frá Íslandsbanka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka