Ákærður af því hann er Lithái?

Einn sakborninga í málinu.
Einn sakborninga í málinu. mbl.is/Rósa Braga

„Fjölmargt kom upp við rannsókn sem bendlaði tollvörðinn við málið. Honum var samt sleppt og líklegt að ákæra myndi ekki leiða til sakfellingar. En hvað er það við Darius sem er líklegt til sakfellis? Líklega er það sú staðreynd að hann er Lithái.“ Þetta sagði Hólmgeir Elías Flosason, verjandi Darius Kochanas, við aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur í gærdag. Dómara málsins þótti Hólmgeir hafa gengið of langt með ummælum sínum og stöðvaði hann af. Þá bað hann Hólmgeir um að kalla ekki eftir að fleiri verði ákærðir. „Mér finnst nú þegar nóg um,“ sagði Guðjón St. Marteinsson, dómari málsins.

Darius er ásamt Dainius Kvedaras ákærður fyrir að flytja inn 1.700 ml af amfetamínbasavökva. Saksóknari í málinu krafðist þess að þeir yrðu dæmdir í fjögurra ára fangelsi fyrir innflutninginn, en vökvinn var sendur með pósti til landsins í janúar síðastliðnum.

Báðir krefjast þeir sýknu í málinu. Hólmgeir sagði ákæruvaldið hafa búið til sögu og að bornar væru upp gríðarlega alvarlegar sakir upp á Darius út frá þeirri sögu. „Honum var gefið það hlutverk [í sögu ákæruvaldsins] að beita sér fyrir innflutningi á amfetamínbasavökva með því að álpast til Danmerkur og aka á tvo staði á höfuðborgarsvæðinu. Ef Dainius hefði tekið leigubíl upp á Stórhöfða væri Darius ekki ákærður. Er boðlegt að ákæra í alvarlegu sakamáli á grundvelli staðsetningar?“ spurði Hólmgeir og einnig hvort leigubílstjórinn hefði þá verið ákærður.

Guðmundur St. Ragnarsson, verjandi Dainius, talaði á svipuðum nótum. „Þótt hann sé frá Litháen þá er þáttur hans lítill sem enginn í þessu máli. Hann er ekki höfuðpaurinn heldur lítið peð á þessu leikborði.“

Krefst 4-10 ára fangelsis

Fimm til viðbótar eru ákærðir í málinu, þrír þeirra fyrir að flytja 19 kíló af amfetamíni til landsins með tveimur póstsendingum í janúar. Þeir eru allir ákærðir fyrir að hafa lagt á ráðin um innflutninginn en því hafna þeir allir þótt þeir játi mismikla aðild að innflutningnum.

Saksóknari gaf það ekki skýrt upp hvað ákæruvaldið teldi hæfilega refsingu vegna innflutningsins. Hann vísaði í Papeyjarmálið þar sem sakborningar hlutu 9-10 ára fangelsi. Það sagði saksóknari efri mörk en svo væru einnig vægari dómar, 4-6 ára fangelsi. Af því að dæma krefst ákæruvaldið 4-10 ára fangelsis vegna brotsins.

Björgvin Þorsteinsson, verjandi Jóns Baldurs Valdimarssonar, gagnrýndi rannsókn lögreglu og spurði hvers vegna meintur höfuðpaur, sem Jón Baldur nafngreindi við skýrslutöku hjá lögreglu, var ekki yfirheyrður. „Þessu verða aðrir að svara, en þetta er mjög sérstakt, að þegar bent er á mann og hann sagður höfuðpaur að það sé ekki kannað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka