Starfsmaður FÍB á 147 km hraða

Hér sést að umrædd bifreið var á 147 km hraða …
Hér sést að umrædd bifreið var á 147 km hraða kl. 22:15:44 í nágrenni við Hrútafjarðará. Skjámynd

„Þetta er auðvitað þvert á það starf sem við stöndum fyrir. Meðal annars var það hugmyndin með þessum búnaði að tryggja að menn keyrðu í samræmi við lög og reglur. Þá geta menn ekki síðar snúið við blaðinu og haldið að þeir geti keyrt eins og vitleysingar,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, um aksturslag starfsmanns FÍB á leiðinni frá Akureyri til Reykjavíkur eftir Sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu í gær þar sem starfsmaðurinn ók á 120 km hraða í Öxnadal og á 147 km hraða tæpum tveimur klukkutímum síðar nálægt Hrútafjarðará.

„Aðför að öryggi borgaranna“

„Þetta er eitthvað sem er óafsakanlegt og sýnir að menn geta ekki keyrt eins og menn þegar þeir eru í keppni en svo um leið og keppni sleppir þá sé ekkert mál að bregða út af og brjóta öll umferðarlög. Þetta er bara aðför að öryggi borgaranna. Þetta er bara fáránlegt,“ segir Runólfur

Forsagan er sú að starfsmaðurinn fékk Mercedes Benz bifreð í eigu Öskju til reynsluaksturs eftir keppnina á leiðinni til Reykjavíkur. Í bifreiðinni var leiðsögutækið SAGA frá íslenska fyrirtækinu Artic Track en tækið skráir allar hreyfingar bílsins. Í Sparaksturskeppni FÍB voru allir bílarnir með SAGA tæki.

Brotin varða sviptingu í einn mánuð og háum sektum

Á skjámynd sem mbl.is hefur undir höndum sést að bifreiðin hefur verið á 120 km hraða kl. 20:31:54 í gærkvöldi, en þá var honum ekið upp úr Öxnadal. Hámarkshraði á þeim stað er 90 km/klst svo ekið var 30 km/klst yfir hámarkshraða. Samkvæmt sektarreikni á síðu Umferðarstofu er sekt við slíku: „Ökumanns bíður 50.000 króna fjársekt og 1 refsipunktur í ökuferilsskrá.“

Á annarri skjámynd sem mbl.is hefur og fylgir fréttinni sést að bílnum hefur verið ekið á 147 km hraða kl. 22:15:44 og þá í nágrenni Hrútafjarðarár. Hámarkshraði á þeim stað er 90 km/klst og því ekið 57 km/klst yfir hámarkshraða. Samkvæmt sektarreikni á síðu Umferðarstofu er sekt við slíku: „Ökumanns bíður 130.000 króna fjársekt, svipting ökuleyfis í 1 mánuð og 3 refsipunktar í ökuferilsskrá.“

Að þessu samanlögðu, ef lögregla hefði stöðvað manninn við athæfið, væri hann nú án ökuréttinda næsta mánuðinn, kominn með fjóra punkta á ökuferilsskrá og hans biði 180.000 kr. sektargreiðslur.

Annar ökumaður einnig að flýta sér

Mbl.is hefur jafnframt heimildir fyrir því að annarri bifreið á sömu leið eftir keppnina hafi verið ekið yfir hámarkshraða. Þeirri bifreið var ekið á 112 km/hraða á klukkustund kl. 00:54:45 í nótt í Hrútafirði. Þar er hámarkshraði 90 km/klst og því ekið á 22 km/klst yfir hámarkshraða. Samkvæmt sektarreikni á síðu Umferðarstofu er sekt við slíku: „Ökumanns bíður 50.000 króna fjársekt og 1 refsipunktur í ökuferilsskrá.“

Í reglum um keppnina segir: „Keppendum er skylt að aka í hvívetna samkvæmt umferðarlögum og -reglum og kosta öll frávik, svosem eins og óeðlilega hægur akstur og hraðakstursbrot, refsistig sem umreiknuð verða samkvæmt reglum keppninnar í viðbótar eldsneyti sem bætist við rauneyðslu bílsins.“

Runólfur sagði spurður að því hvort til greina kæmi að vísa manninum úr keppninni þrátt fyrir að henni hafi verið lokið - í ljósi aðstæðna - að það þyrfti að skoða. Það væri ekki í reglunum en þyrfti þá að setja inn í regluverkið því búnaður sem þessi væri kominn til með að vera.

FÍB vill hafa aukið umferðaröryggi að leiðarljósi

Í 2. grein í lögum FÍB segir: „Tilgangur félagsins er að sameina bifreiðaeigendur á Íslandi; efla umferðaröryggi, umferðarmenningu og gæta hagsmuna bifreiðaeigenda. Félagið skal vera neytendasamtök bifreiðaeigenda og reka hagnýta ráðgjöf fyrir félagsmenn sína.  Félagið skal veita stjórnvöldum ráðgjöf og umsögn í öllum erindum er varða ökutæki og umferðarmálefni. Félagið vill stuðla að auknum valkostum og frelsi í samgöngum. Félagið vill tryggja hreyfanleika með hagsýni, umhverfisvitund og öryggi bifreiðaeigenda að leiðarljósi.“

Ekki verður með góðu móti séð að starfsmaður FÍB hafi með aksturslagi sínu sýnt gott fordæmi hvað varðar ofangreindan kafla í lögum félagsins, sem finna má í heild hér.

„Menn geta ekkert skýlt sér á bak við það að þeir héldu að það væri búið að slökkva á búnaðinum,“ sagði Runólfur að lokum.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka