Ferðamenn lentu ofan í gjá á Kili

Ferðamenn lentu í vandræðum á Kjalvegi þegar bíll þeirra hafnaði …
Ferðamenn lentu í vandræðum á Kjalvegi þegar bíll þeirra hafnaði ofan í gjá við Sandá. Engar merkingar eru sem gefa til kynna að vegurinn sé lokaður, þrátt fyrir að svo sé enn. mbl.is/Hjörtur

Umferðaróhapp varð á Kjalvegi í dag þar sem fimm kínverskir ríkisborgarar voru á bílaleigubíl og lentu ofan í gjá sem myndast hafði á veginum við Sandá. Þrjár konur í bílnum urðu fyrir minniháttar eymslum en eftir að hafa farið undir læknishendur á Blönduósi fóru þær ásamt mönnunum á gistiheimili þar sem hópurinn dvelur í nótt.

Athygli vekur að vegurinn um Kjöl er lokaður. Hinsvegar segir lögreglan á Blönduósi að engar merkingar séu á veginum sem gefi til kynna að svo sé og gagnrýnir Vegagerðina fyrir. Fólkið fór því í sakleysi sínu, með kort af Íslandi í farteskinu, í góðri trú um að vegurinn væri fær og opinn.

Hefðu ekki tveir menn á fjórhjólum komið að hópnum við Sandá er alls óvíst hvernig hefði á endanum farið, en mennirnir gátu farið á stað þar sem símasamband var og hringt eftir aðstoð. Búist er við að fólkið fái annan bílaleigubíl í fyrramálið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert