Ingvar Pétur Guðbjörnsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Hann hóf störf í ráðuneytinu í dag.
Ingvar Pétur hefur starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu frá ársbyrjun 2012. Áður starfaði Ingvar Pétur m.a. hjá Landsvirkjun á skrifstofu forstjóra við almannatengsl og kynningarmál, sem aðstoðarmaður upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar og hjá Sláturhúsinu á Hellu við skrifstofustörf.
Ingvar Pétur sat í sveitarstjórn Rangárþings ytra árin 2002-2010 og 2011-2012 og hefur langa reynslu af setu í stjórnum og nefndum á sveitarstjórnarstiginu. Hann var formaður Fjölnis, félags ungra sjálfstæðismanna í Rangárvallasýslu 1999-2007, sat í stjórn SUS 2001-2005, hefur setið í stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Rangárvallasýslu frá árinu 1999 og átt sæti í stjórn kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi um árabil.
Ingvar Pétur er 34 ára gamall, stúdent af hagfræðibraut frá Fjölbrautaskóla Suðurlands árið 1999 og búfræðingur frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri árið 2001. Þá hefur hann lagt stund á stjórnmálafræði og sagnfræði við Háskóla Íslands. Unnusti Ingvars er Charles Gittins, gæðastjóri og þýðandi á þýðingamiðstöð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.