Netöryggissveit tekin til starfa

AFP

Þann 1. júní tók gildi reglugerð innanríkisráðuneytisins um starfsemi netöryggissveitar innan Póst- og fjarskiptastofnunar, CERT-ÍS. Starfsemi sveitarinnar er þar með formlega hafin.

Markmiðið með starfsemi netöryggissveitarinnar er að fyrirbyggja og draga úr hættu á netárásum og öðrum öryggisatvikum í netumdæmi hennar og sporna við og lágmarka tjón af þeim sökum á ómissandi upplýsingainnviði samfélagsins, segir í frétt frá Póst- og fjarskiptastofnun.

Netumdæmi sveitarinnar nær til að byrja með til fjarskiptafyrirtækja sem reka almenn fjarskiptanet og/eða veita aðgang að internetinu og internetþjónustu, en ekki til almennra notenda.  Einnig geta rekstraraðilar þeirra upplýsingakerfa sem teljast til ómissandi upplýsingainnviða gert þjónustusamninga við sveitina.  Ómissandi upplýsingainnviðir eru til dæmis kerfi sem tryggja eiga þjóðaröryggi, almannaheill og margs konar öflun aðfanga sem nauðsynleg eru í nútíma samfélagi og verða þeir nánar skilgreindir af ríkislögreglustjóra.

Netöryggissveitin mun greina og meta öryggisatvik innan netumdæmis síns, leiðbeina og eftir atvikum leiða viðbrögð og vera samhæfingaraðili þegar um stærri atvik er að ræða.

Netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar, CERT-ÍS er einnig tengiliður íslenskra stjórnvalda í alþjóðlegu samstarfi CERT netöryggissveita um viðbrögð og varnir vegna net- og upplýsingaöryggis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert