„Ég vissi að þetta yrði erfið ferð“

Guðni Páll Viktorsson.
Guðni Páll Viktorsson. mbl.is/Eggert

„Ég held kyrru fyrir í dag og ætla að freista þess að komast af stað á morgun,“ segir Guðni Páll Viktorsson kajakræðari sem er staddur í Ólafsvík og hefur róið um þriðjung af leiðinni umhverfis Ísland. Veðrið hefur heldur betur sett strik í reikninginn hjá Guðna síðan hann hóf róðurinn 30. apríl.

Guðni hefur samtals verið veðurtepptur í meira en viku og ætlar hann að halda sig í landi í dag vegna hvassviðris. „Nú er mjög slæmt veður á svæðinu en ég ætla að freista þess að komast af stað á morgun,“ segir hann. „Ég hef verið einstaklega óheppinn með veður en það þýðir ekki að kvarta yfir því, við búum hér og verðum að sætta okkur við þetta.“ Ferðaplanið hafi lengst og mjög fljótlega hafi dagarnir klárast sem hann reiknaði með að þurfa að eyða að öllu leyti í landi vegna veðurs. „Ég ætlaði upphaflega að klára í kringum 1. júlí, en ég er að vona að  veðrið í júní verði betra og að ég geti komist áfram og þá er ég að vona að ég geti lokið ferðinni fljótlega í júlí,“ segir Guðni. „Ef það er gott veður þá kemst maður vel áfram. Ef það er gott veður dag eftir dag þá kemst maður á gott skrið þannig að það gæti síðan farið svo að ég kláraði á pari.“

Hlustar á tónlist og hljóðbækur

Guðni hefur róið alls 748 km af u.þ.b. 2.300 km og er ekki að undra að hann hafi glímt við særindi í lófum. Hann segist vera orðinn nokkuð góður núna, hvíldin frá róðrinum hjálpi til við að láta sárin gróa, en hann segist verða enn betri um leið og taki að hlýna. „Þangað til er það bara sjúkrateip og góður handaáburður. Hann skilar manni langt,“ segir hann. En hvenær gerir hann ráð fyrir að verða hálfnaður í ferðinni umhverfis landið? „Þetta er erfið spurning, það fer eftir hversu mikið ég þarf að fara inn í Breiðafjörðinn. Ég veit það ekki fyrr en ég er kominn af stað, en ég verð rosalega ánægður þegar ég kemst vestur í Bolungarvík.“

Guðni segir margt fara í gegnum hugann þegar hann er að róa. „Það er ótrúlegt hvað fer í gegn og hvað fer ekki. Þetta er mikið daglegt líf og svo er ég með smá tímaeyðslu í eyrunum, tónlist og hljóðbækur, það gerir þetta auðveldara. Annars reyni ég mikið að leiða hugann frá róðrinum sjálfum en hérna á Snæfellsnesinu er til dæmis rosalega fallegt og maður er mikið að skoða í kringum sig og fylgjast með.“

Spurður hvort hann hafi einhvern tímann orðið hræddur á leiðinni, segir hann brotsjó sem hann fékk á sig á suðurströndinni hafa ýtt aðeins við sér. „Annars er í rauninni ekkert sem hefur gert mig beint hræddan en það hefur ýmislegt komið upp sem ég átti ekki von á, aðallega tengt veðri, en ég vissi að þetta yrði erfið ferð, bæði andlega og líkamlega.“Guðni vonast til að geta haldið róðrinum áfram á morgun en hann verði eflaust ekki langur þar sem spáin er slæm. „Ég er svo háður veðri að ég verð bara að semja við þann sem stjórnar því.“

Hægt er að lesa um hringróðurinn á heimasíðu Kayakklúbbsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert