Dómstóll í Kaupmannhöfn dæmdi í gær 39 ára Íslending, Guðmund Inga Þóroddsson, í 12 ára fangelsi fyrir innflutning á fíkniefnum til Danmerkur. Maðurinn var talinn höfuðpaur í afar umfangsmiklum fíkniefnainnflutningi en magnið hljóp á tugum kílóa af amfetamíni. Fleiri Íslendingar eru í haldi vegna málanna.
Þetta kemur fram á vefsvæði Ríkisútvarpsins.
Guðmundur Ingi hefur margsinnis komist í kast við lögin hér á landi vegna fíkniefnamála. Árið 2000 var hann dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir innflutning á 3.850 e-töflum og sölu og dreifingu fíkniefnanna hérlendis.
Dómur Hæstaréttar féll 19. desember 2000 en á sama tíma var Guðmundur Ingi að leggja á ráðin um enn umfangsmeiri fíkniefnainnflutning. Hann játaði sinn þátt í fíkniefnasmygli sem hann skipulagði ásamt öðrum meðan hann var í fangelsi. Með aðstoð samfanga sinna og manna utan fangelsisins flutti hann inn tæplega 1.000 e-töflur og gerði misheppnaða tilraun til að flytja inn 4-5.000 e-töflur.
Guðmundi Ingi hlaut fimm ára dóm fyrir það mál.
Dómar yfir öðrum Íslendingum sem eru í varðhaldi í Danmörku vegna innflutnings tuga kílóa amfetamíns verða kveðnir upp í haust.