Sigmundur fundaði með Medvedev

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Dmitry Medvedev á fundi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Dmitry Medvedev á fundi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, fundaði með Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, mánudaginn 3. júní í tengslum við leiðtogafund sem þeir sóttu í Kirkenes í Noregi.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Forsætisráðherrarnir ræddu meðal annars áherslur íslenskra stjórnvalda um aukna þátttöku og samstarf á norðurslóðum af hálfu Íslands.  Mikilvægi tvíhliða samskipta Íslands og Rússlands var rætt sérstaklega, en um þessar mundir eru 70 ár síðan ríkin hófu stjórnmálasamband, sem hefur staðið með miklum ágætum síðan.  Af þessu tilefni verður m.a. haldin sýning á verkum Jóhannesar Kjarval í St. Pétursborg síðar á árinu, sem er heimaborg rússneska forsætisráðherrans. Einnig hefði nýlega hafist beint flug til borgarinnar, sem auðveldaði enn frekar samskipti borgara, menningartengsl og ferðamennsku.

Rætt var um bæði hefðbundið samstarf og viðskipti ríkjanna, sem hefur verið vaxandi, en einnig ýmis tækifæri og nýjungar sem gætu skapað aukin tengsl og viðskipti, með vörur og þjónustu, m.a. jarðhitasamstarf o.fl.

Ísland er í hópi EFTA ríkjanna sem nú eru í samningaviðræðum við Rússland um fríverslunarsamning og hvatti forsætisráðherra til þess að samningamenn yrðu hvattir til þess að finna lausnir sem gætu orðið til þess að ljúka þeim viðræðum.

Forsætisráðherrarnir voru sammála um að svæðissamstarf væri mikilvægt og stöðugleiki helgaðist ekki síst af öflugum og sterkum tengslum við næstu nágranna og viðskiptalönd.  

Forsætisráðherra bauð Medvedev að sækja Ísland heim þegar kostur gæfist og bauð Medvedev forsætisráðherra sömuleiðis að heimsækja Rússland á ný við tækifæri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka