Annþór og Börkur ákærðir

Annþór Kristján Karlsson uppi við vegginn og Börk Birgisson fyrir …
Annþór Kristján Karlsson uppi við vegginn og Börk Birgisson fyrir miðri mynd. mbl.is

Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Annþóri Kristjáni Karlssyni og Berki Birgissyni en í henni er þeim gefið að hafa í sameiningu veist með ofbeldi á fanga á Litla Hrauni og veitt honum högg á kvið með þeim afleiðingum að rof kom á milta og á bláæð frá miltanu sem leiddi til dauða hans skömmu síðar af völdum innvortis blæðinga.

Annþór og Börkur eru ákærðir fyrir stórfellda líkamsárás, skv. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga en í ákvæðinu segir: „Nú hlýst stórfellt líkams- eða heilsutjón af árás eða brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þ. á m. tækja, sem notuð eru, svo og þegar sá, er sætir líkamsárás, hlýtur bana af atlögu, og varðar brot þá fangelsi allt að 16 árum.“

Fórnarlambið lést í klefa sínum 17. maí í fyrra. Frá upphafi rannsóknar voru  Annþór Kristján og Börkur grunaðir um að hafa veitt manninum áverka sem leiddu hann til dauða, en upptaka úr öryggismyndavél fangelsisins sýndi að þeir fóru inn í klefa hins látna skömmu áður en hann kenndi sér meins og lést í kjölfarið.

Rannsókn málsins þótti afar umfangsmikil og flókin. Var meðal annars leitað til ýmissa sérfræðinga um úrlausn tiltekinna atriða. Þannig var dómkvaddur réttarmeinafræðingur fenginn til að fara yfir þau gögn sem urðu til við krufningu líksins auk annarra þátta sem varða áverka þá er leiddu til dauða mannsins. Þá voru tveir prófessorar í sálfræði dómkvaddir til að greina atferli fanga á upptökum úr öryggismyndavélum.  

Vitni hafa þegar verið leidd fyrir dóm og þau gefið skýrslu undir nafnleynd. Er það vegna þess að framburður þeirra um málavexti er talinn geta sett þau í hættu.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Suðurlands 11. júní næstkomandi. Búast má við töluverðum viðbúnaði lögreglu, en áður hefur verið róstusamt í kringum Annþór og Börk í dómsal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert