Lét útbúa kauphallarhermi

Aðsetur sérstaks saksóknara. Sérstakur saksóknari
Aðsetur sérstaks saksóknara. Sérstakur saksóknari mbl.is

Sérstakur saksóknari fékk prófessor við verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands útbúa kauphallarhermi sem nýtist við rannsókn markaðsmisnotkunarmála. Hæstiréttur hefur staðfest að heimilt sé að leggja herminn fram sem gagn í dómsmálum og skýrslur byggðar á honum.

Framlagning umræddra gagna var til skoðunar í máli sérstaks saksóknara gegn níu fyrrverandi stjórnendum og starfsmönnum Kaupþings.

Kauphallarhermirinn sem útbúin var fyrir sérstakan saksóknara gerði rannsakendum málsins kleift að skoða hvern viðskiptadag fyrir sig hjá Kaupþingi banka á tilteknu tímabili. Hermirinn er byggður á yfirliti frá kauphöllinni yfir viðskipti með og tilboð í hlutabréf í Kaupþingi á tilteknu tímabili.

Verjendur sakborninga í málinu mótmæltu því að geisladiskar með herminum yrðu lagðir fram svo og tilteknar blaðsíður úr gögnum sem unnin voru upp úr honum. Þeir telja að úrvinnsla sérstaks saksóknara og eigin ályktanir rannsakenda eða manna á þeirra vegum geti ekki verið sönnunargögn sem heimilt sé að leggja fram í sakamáli. Hið sama eigi við um gerð tölvuforrits.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að heimilt væri að leggja fram umrædd gögn og í gær staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu.

Má ekki leggja fram tvær álitsgerðir 

Hæstiréttur staðfesti einnig að saksóknari megi leggja fram í málinu skýrslu um greiningu á kauphallargögnum um viðskipti og tilboð í hlutabréf Kaupþings banka, Landsbanka Íslands og Glitnis banka.

Hins vegar var saksóknara synjað um að leggja fram álitsgerð lagaprófessors frá Danmörku og ber yfirskriftina „Lögfræðiálit um hugsanlega markaðsmisnotkun þriggja banka“ og einnig sameiginlega álitsgerð danska lagaprófessorsins og dansks prófessors í fjármálum sem ber heitið „Svör við álitsbeiðni embættis sérstaks saksóknara um viðskipti og meinta markaðsmisnotkun með hlutabréf í Kaupþingi“.

Hæstiréttur taldi skýrslurnar væru í eðli sínu álitsgerðir um atriði er lúti að mati á sönnun um atvik málsins, en það sé í verkahring dómara.

Símtöl við lögmenn hleruð

Héraðsdómur og Hæstiréttur voru sammála um að saksóknari megi leggja fram í málinu endurrituð hleruð símtöl eins sakborninga við tvo lögmenn.

Verjandi sakborningsins bar við að framlagningin bryti gegn ákvæðum laga um meðferð sakamála, reglum um þagnarskyldu lögmanna, stjórnarskránni og mannréttindasáttmálanum.

Dómarar sögðu hins vegar ljóst að hvorugur lögmaðurinn var verjandi sakborningsins. „Hafi gögnin að geyma upplýsingar um samtöl eða önnur samskipti sakbornings við verjanda sinn skal þeim eytt þegar í stað. Eins og áður sagði voru umræddir lögmenn ekki verjendur ákærða og þess vegna bar ekki að eyða samtölunum. Hvorki nefnd ákvæði laga nr. 88/2008 né ákvæði annarra réttarheimilda, sem ákærði vísar til, skylda lögreglu til að eyða upptökum af símtölum grunaðra manna nema þar sem þeir ræða við verjendur sína.“

Hörður Felix Harðarson, Hreiðar Már Sigurðsson, Karl Axelsson og Sigurður …
Hörður Felix Harðarson, Hreiðar Már Sigurðsson, Karl Axelsson og Sigurður Einarsson. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert