Hlynur Hallsson, myndlistarmaður á Akureyri, telur sig hafa fundið þann sem framdi náttúruspjöll í Mývatnssveit á dögunum. Hlynur var á sýningarölti í Berlín þegar hann rakst á myndverk eftir Julius von Bismarck en þar koma fyrir mývetnsku náttúrufyrirbrigðin eftir að búið er að mála orð í þau. Þetta kemur fram á vef Akureyrar vikublaðs.
Fram kemur, að myndir sem Hlynur tók á sýningunni bendi til að fleiri spjöll hafi verið framin á náttúru Íslands en greint hafi verið frá í fjölmiðlum. Greint hefur verið frá skemmdarverkum á Hverfjalli, í Grjótagjá og við Kálfastrandavoga.
Þá segir, að höfundur myndanna, Julius von Bismarck, hafi sýnt hér á landi og virðist samkvæmt leitarvélum hafa margvísleg tengsl við Ísland. Merkingarnar, sem Umhverfisstofnun hafi kallað „náttúruterrorisma“, stangast á við íslensk lög. Refsing við brotum á náttúruverndarlögum getur orðið allt að tveggja ára fangelsi.