Læknakandídatar segja að framkoma og skortur á samstarfsvilja Landspítala hafi haft þær afleiðingar að þorri hópsins sé farinn að íhuga að ljúka kandídatsári sínu annarsstaðar en á Landspítalanum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá kandídötum. Þeir segja að ummæli Björns Zoëga, forstjóra LSH, í Fréttablaðinu sl. mánudag séu hryggjandi.
Þar lætur hann í veðri vaka að kandídatar séu ekki starfsmenn Landspítalans og standi ekki jafnfætis starfsmönnum í því að leita réttar síns gagnvart spítalanum sem vinnuveitanda og að Landspítalinn geti vel starfað án kandídata,“ segir í tilkynningu sem Dagrún Jónasdóttir, talsmaður kandídata, sendi á fjölmiðla.
„Kandídatar eru hópur metnaðarfulls og velmenntaðs fólks sem vill fá góða kennslu og þjálfun í starfi á kandídatsárinu og sætta sig ekki lengur við að vinna launalaust. Það er óhætt að segja að framkoma og skortur á samstarfsvilja Landspítala hefur haft þær afleiðingar að þorri hópsins er farinn að íhuga að ljúka kandídatsári sínu annars staðar en á Landspítala,“ segir ennfremur.