„Þegar þú ferð á Louvre-safnið þá kemurðu ekki við málverkið af Mónu Lísu til að snerta málninguna sem Leonardo da Vinci notaði,“ segir leikstjórinn Darren Aronofsky, sem hélt í dag blaðamannafund með Árna Finnssyni, formanni Náttúruvernarsamtaka Íslands. Samlíkinguna notaði leikstjórinn til að bera saman óheftan aðgang almennings að náttúruperlum landsins. Tilefni fundarins var að Aronofsky ætlar að styðja við samtökin, en ekki var gefið upp hver fjárhæð þess stuðnings yrði. „Það er samt alls ekki nógu mikið,“ segir Aronofsky.
Aronofsky, sem tók upp og leikstýrði kvikmyndinni Noah á Íslandi síðasta sumar, segist gera þetta til að vega upp á móti þeim umhverfisáhrifum sem gerð myndarinnar kann að hafa haft á náttúru Íslands, sem hann segir einstaka í heiminum.
„Ég kom hingað til lands fyrst fyrir 15 árum á kvikmyndahátíð. Ég fór ekki mikið út fyrir Reykjavík, en ég fór í stuttan leiðangur og fékk áhuga á náttúrunni. Fyrir nokkrum árum kom ég aftur og fór norður í land. Það var á þeim tíma sem Noah var bara kvikmyndahandrit en þegar ég keyrði um landið þá áttaði ég mig á því að ég vildi gera myndina hérna,“ segir Darren.
Hann segir hafa komið sér mjög á óvart hversu óheftan aðgang kvikmyndargerðarmenn hafa að náttúrunni. „Þegar líða tók á tökurnar spurði ég umsjónarman tökustaðanna okkar hjá True North að því hvernig þessar ótrúlegu náttúruperlur væru verndaðir. Ég var mjög hissa hvað við höfðum greiðan aðgang að öllum þessum svæðum, sem er falleg hugsjón, en ég velti fyrir mér að eftir því sem fleiri ferðamenn koma til landsins hvað verði þá um þessa staði,“ segir Aronofsky.
Aronofsky var því settur í samband við Náttúruverndarsamtök Íslands svo hann gæti dregið athygli að starfi Náttúruverndarsamtakanna og því starfi sem þau vinna, í þeim tilgangi að bæta fyrir þau náttúruspjöll sem kunna að hafa orðið við gerð myndarinnar.
Aronofsky sagði að vegir væru yfirleitt upphafið að náttúruágangi, og nefndi í því sambandi að hann sæi mjög eftir að hafa lagt veg um óbyggðir Ástralíu, en því fylgdi að hans sögn mikið rask. „Kvikmyndagerðarmenn eru ekki alltaf meðvitaðir um að skilja staðinn betri eftir sig en þegar koma til landsins,“ segir Aronofsky.
„Megnið af því góðgerðarstarfa sem ég vinn er á sviði umhverfisverndar. Í því starfi hef ég séð mikið af ósnortinni náttúru hverfa en á Íslandi er ofgnótt af þeim að það er ótrúlegur fjársjóður sem þið eruð heppin að eiga,“ segir Aronofsky, og á þar við íslensku þjóðina. „Þegar ég tala við fólk um Ísland á ferðum mínum um heiminn sér fólk landið fyrir sér sem ósnortna náttúruperlu og vilja heimsækja landið af nákvæmlega þeirri ástæðu, að hér er náttúrufegurð sem er ólík öllu öðru í heiminum.“
Leikstjórinn segir að í ljósi þess að hann gerði myndina hér á landi vilji hann bæta fyrir það rask sem það hafði í för með sér. „Við gerðum allt hvað við gátum til að vernda náttúruna ykkar,“ segir Aronofsky. Árni tekur undir og segist hafa skilið að Aronofsky væri alvara með að styðja samtökin þegar hann sá hversu vel kvikmyndatökulið hans gekk um íslenska náttúru.
„Íslensk náttúra er mjög viðkvæm,“ segir Aronofsky. „Mosinn hérna er einstakur í heiminum. Þið gerið ykkur kannski ekki grein fyrir því þar sem þið hafið hann fyrir augunum alla daga. Við byggðum því gönguleiðir á tökustað til að vernda svæðið eins og við gátum, en það verða alltaf einhver áhrif.“
„Íslensk náttúra er ótrúlega falleg, en allir þessir ferðamenn fara um þessa staði og gera sér sennilega ekki grein fyrir þeim skaða sem þeir kunna að vinna, án þess að ætla sér það með nokkru móti,“ segir Aronofsky. „Ég er tilbúinn að leggja mikið undir við þá fullyrðingu mína að því lengur sem ósnortin náttúra helst óspjölluð, því verðmætari verður hún, því hún er á undanhaldi í heiminum.“
Árni Finnsson nefndi í þessu samhengi að Íslendingar stæðu frammi fyrir ákveðnu vali, um hvort betra væri að fjölga ferðamönnum með tilheyrandi auknum ágangi eða hvort leggja meiri áherslu á að fá hingað til lands ferðamenn sem verja meira fé hér á landi.
Aronofsky sagði Ísland muni örugglega halda áfram að vera áfangastaður ferðamanna, því náttúran hér sé einstök í heiminum, en hana verði að vernda. Hann nefndi Seltún í því samhengi, sem hann sagði einhvern fallegasta stað í heimi. „Ég ímynda mér að hver einasta rúta sem fer um þetta svæði komi þar við. Þegar við komum þangað sáum við fótspor í drullunni. Það er hneisa,“ segir hann. „Þið verðið að vernda náttúruna, því hún er ykkar Móna Lísa. Þið fæddust á þessu landi og þið þurfið að vernda það.“
Aronofsky sagði líka að ekki væri hægt að treysta á ríkisstjórnir til að vernda umhverfið, heldur þyrfti að horfa til fólk sem hefur ástríðu fyrir umhverfisvernd. „Það þarf að hlusta á raddir fólks eins og Árna. Þetta er fjársjóður barnanna ykkar og barnabarna. Það mun breytast mjög hratt ef þið farið ekki að passa upp á hann. Mér finnst ég hafi hlotið ákveðna blessun að hafa fengið að vera hér við tökur,“ segir Aronofsky.
Árni sagði stuðning þann sem samtökin hefðu fengið frá leikstjóranum frábæran. „Það dregur kannski athygli að málstaðnum, eins og sést á þessum fundi. Þetta snýst líka allt um peninga, skammtímagróða í keppni við langtímahagsmuni okkar.“