“Upplifa sig sem vinnudýr“

Læknakandídatar segja ítrekað brotið á kjarasamningum.
Læknakandídatar segja ítrekað brotið á kjarasamningum. mbl.is/Hjörtur

Talsmaður læknakandídata segir að endurtekið sé brotið á kjarasamningum og að margir læknakandídatar upplifi streitu vegna þeirrar ábyrgðar sem er á þeirra herðum. Vinna þeir oft einir í teymi og ekki undir handleiðslu lækna eins og tíðkast erlendis. Fyrir vikið sé varla hægt að tala um starfsnám.

Læknakandídatar á Landspítalanum sendu frá sér tilkynningu í gær þar sem vakin er athygli því að kjarasamningar séu ekki virtir og vinnuaðstæður séu ófullnægjandi. Í tilkynningunni segir meðal annars.  

„Lögverndaður hvíldartími er skertur, yfirvinna og veikindadagar hafa ekki verið greiddir. Í öðru lagi er aðbúnaður í starfi með þeim hætti að aðlögun, kennsla og handleiðsla verður gjarnan útundan vegna sífelldrar undirmönnunar og annríkis almennra lækna og sérfræðinga. Í þriðja lagi hafa kandídatar og almennir læknar dregist mjög aftur úr í launaþróun háskólastétta með sambærilega háskólamenntun, á sama tíma og álag á spítalanum hefur aukist gífurlega samfara sífelldum niðurskurði og efnahags þrengingum,“ segir í tilkynningunni.

Ekki fullnægjandi þjálfun

Dagrún Jónasdóttir er talsmaður læknakandídata. Hún segir að kandídatar taki sömu vaktir og aðrir almennir læknar. Hún gagnrýnir orð Björns Zöega um að læknakandídatar séu ekki eins og aðrir starfsmenn sökum þess að þeir séu í starfsnámi. „Ef að kennslan væri fullnægjandi þá væri hægt að halda þessu fram en ég get ekki sagt að við séum að fá fullnægjandi þjálfun ef frá er skilin sjálfsbjargarviðleitni í aðstæðum sem koma upp,“ segir Dagrún. 

Hún segir að hver læknakandídat upplifi það að kjarasamningar séu ekki virtir. „Endurtekið er brotið á kjarasamningum almennra lækna og kandídata. Þá er það fyrst og fremst að hvíldartími er ekki virtur. En auk þess hefur það oft gerst að kandídatar hafa ekki fengið greitt fyrir vaktirnar ef þeir eru heima með veik börn,“ segir Dagrún.

Upplifa sig sem vinnudýr

Í mörgum tilfellum geta læknakandídatar ekki leitað til deildarlækna til þess að fá handleiðslu að sögn Dagrúnar.

„Þetta er ekki orðið neitt nám. Við erum ein í teymi og oft enginn til þess að leiðbeina okkur. Kandídatar upplifa sig sem vinnudýr þar sem kennsluskyldu ársins er ekki sinnt,“  segir Dagrún. Af þeim sökum segir hún marga upplifa streitu vegna þeirrar ábyrgðar sem sett er á þeirra herðar.

Í tilkynningu segir jafnframt að þorri læknakandídata sé vegna fyrrgreindra atriða að íhuga að sinna sínu starfsnámi annars staðar en á Landspítalanum. Dagrún segir læknakandídatar geti sótt starfsnám á Akureyrir og Akranesi sem og erlendis. „Flestir eru hvort sem er á leið erlendis eftir starfsnámið til sérhæfingar. Því skiptir ekki öllu máli fyrir flesta þótt þeir fari einu ári fyrr erlendis til náms,“ segir Dagrún.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert