Auknar veiðar á næsta fiskveiðiári

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Kristinn Ingvarsson

„Skapist til dæmis stöðugt rekstrarumhverfi fyrir undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar mun það að öllum líkindum leysa úr læðingi mikla fjárfestingagetu,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld.

Þá bætti hann við að sem betur væri útlit fyrir að hægt verði að auka veiðar þegar á næsta fiskveiðiári og auka þar með útflutningstekjur þjóðarinnar talsvert.

Sigmundur Davíð benti jafnframt á í ræðu sinni að almenn sátt ríki um að sjávarauðlindin sé sameign þjóðarinnar allrar en einnig þurfi að ríkja víðtæk sátt um nýtingu auðlindarinnar.

„Því verður unnið áfram á grunni sáttanefndarinnar að því að samningsbundin réttindi um nýtingu aflaheimilda taki við af varanlegri úthlutun. Eðlilegt er að sjávarútvegurinn leggi sitt af mörkum til samfélagsins í formi skatta og gjalda í skiptum fyrir nýtingarréttinn, sem orðinn er verðmætur vegna þess að íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið hefur gert hann verðmætan,“ sagði Sigmundur Davíð.

Þá sagði hann að unnið verði að því að endurskoða lög um veiðigjald á þann hátt að almenna veiðigjaldið endurspegli afkomu útgerðarinnar í heild en hið sérstaka veiðigjald taki mið af afkomu bæði einstaka fyrirtækja og fisktegunda.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, flytur stefnuræðu sína.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, flytur stefnuræðu sína. Morgunblaðið/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert