„Bergið er alveg kynngimagnað“

Mbl.is/Eggert

„Bergið er alveg kynngimagnað,“ segir Guðni Páll Viktorsson, kajakræðari sem staddur er í Breiðuvík á Vestfjörðum og hefur nú róið tæplega helminginn af leiðinni umhverfis Ísland. Gísli hóf ferð sína 30. apríl síðastliðinn og hefur lent í ýmsum ævintýrum síðan. Honum brá svo sannarlega í brún í morgun þegar grjóthnullungar hrundu úr Látrabjargi þar sem hann var við siglingu. 

Í miklum straumi myndast straumleysi við fjöruna sem liggur meðfram Látrabjargi. Guðni Páll varð því að róa þétt upp við þverhnípt bergið, skammt utan við fjörugrjótið. Á miðri leiðinni heyrði hann gífurleg læti, en þá höfðu grjóthnullungar hrunið úr Látrabjarginu. „Þarna kom eitt stykki grjót niður og þá var ég ekki lengi að færa mig upp,“ segir Guðni Páll sem ekki var í hættu vegna hrunsins. Hann segir grjótsprengingar sem þessar daglegt brauð á þessum slóðum. Mikið rigndi í nótt og það hafi líklega komið hruninu af stað.

Í góðu yfirlæti á Breiðuvík

Guðni Páll náði landi í Breiðuvík um klukkan 10 í morgun. Hann var sóttur á fjórhjóli og dvelur nú í góðu yfirlæti á Hótel Breiðuvík. „Það er alltaf gott að vera kominn vestur,“ sagði hann, en búið að opna hótelið og fékk hann heita súpu og brauð í morgun. Guðni Páll er uppalinn á Vestfjörðum og er því næstum kominn á heimaslóðir. Þá er hann tæplega hálfnaður með ferð sína umhverfis landið. „Ég verð hálfnaður fyrir miðjum Vestfjarðakjálka,“ sagði hann í samtali við mbl.is.

Veðrið er heldur skárra en í upphafi ferðar og hefur hlýnað nokkuð. „Það gerir þetta aðeins skemmtilegra,“ segir Guðni. Stefnt er að því að halda ferðinni áfram í fyrramálið og hvíla vel í dag. Hann var orðinn nokkuð sár í höndunum um daginn en líður nú töluvert betur. „Hendurnar eru þokkalega grónar, komið vel af siggi.“

Hægt er að lesa um hringróðurinn á heimasíðu Kayakklúbbins. 

Around Iceland 2013

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka