Boðar sátt um kjör og umhverfismál

Bjarni Benediktsson í ræðustól Alþingis í kvöld.
Bjarni Benediktsson í ræðustól Alþingis í kvöld. Skjáskot af vef Alþingis.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra boðaði samstarf á vinnumarkaði til að ná böndum á víxlverkun launahækkana og verðbólgu:

„Eitt af stóru málunum er að tryggja stöðugleika og sátt um kjaramál. Það er mikilvægt að stjórnvöld, vinnuveitendur, stéttarfélög og launþegar séu samstíga og samtaka í þeim aðgerðum sem farið verður í næstu ár. Með því að líta heildstætt á þessi mál má vinna gegn víxlverkun launahækkana og verðbólgu. Þannig tryggjum við að kjarabætur skili sér í raun og stuðlum að friði á vinnumarkaði.“

Bjarni boðaði jafnframt sátt á sviði umhverfismála:

„Friður og sátt eru markmið í sjálfum sér sem eiga við í víðu samhengi. Við erum svo heppin að það er miklu fleira sem sameinar okkur en sundrar og við höfum sameiginlega hagsmuni af því að byggja hér upp framsækið samfélag sem byggir á fjölbreyttu atvinnu- og menningarlífi. Slíkt samfélag fagnar skapandi hugsun, framtakssemi og nýjungum, hefur í hávegum farsælar og rótgrónar atvinnugreinar og metur að verðleikum þær auðlindir sem því eru gefnar.

Um það snúast áform okkar um að taka upp rammaætlun, að finna sameiginlegan flöt á virkjun og verndun. Að því hefur verið látið liggja að á bak við þá fyrirætlun sé einungis erindisrekstur fyrir stóriðjusinna. Það er rangt. Markmiðið er ekki að þjóna hagsmunum eins um fram annan, heldur að ná sátt um nýtingu auðlinda sem geta skapað hér græna orku um ókomna tíð - og um verndun svæða sem við erum sammála um að ekki skulu nýtt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka