Fjármálaráðuneytið allt eins óþarft

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna.

„Allar okkar ákvarðanir í nútímanum eiga að taka mið af framtíðinni og hagsmunum ófæddra kynslóða“, sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í ræðu sinni á Alþingi í kvöld. Þá gengi ekki að atvinnustefna stjórnvalda snérist um fleiri álver og virkjanir. Í ræðunni lagði Katrín megináherslu á umhverfismál.

Hún vísaði til þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, hefði í stefnuræðu sinni fyrr í kvöld sagt að umhverfisvernd sneri að framtíðinni  og hagsmunum ófæddra kynslóða. „Við hljótum að gera þá kröfu til ríkisstjórnar sem vill láta taka sig alvarlega að hún hafi fjölbreytta atvinnustefnu en ekki bara útjaskaða stóriðjustefnu – stóriðjustefnu sem var vandlega falin í kosningabaráttunni en sprettur nú upp eins og kanína úr hatti töframanns,“ sagði Katrín í ræðunni og benti á að umrædd stóriðjustefna nyti ekki lengur sömu vinsælda hjá almenningi sem séð hefði afleiðingar hennar á bæði samfélagið og umhverfið.

Þá gagnrýndir Katrín harðlega í ræðu sinni ummæli Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra þess efnis að ein niðurstaða stjórnkerfisbreytinga gæti orðið sú að umhverfisráðuneytið verði óþarft. „Allt eins mætti segja að fjármálaráðuneytið væri óþarft enda megi flétta verkefnum þess inn í alla aðra málaflokka, en mér er til efs að nokkur myndi fara í þá vegferð sem segir sitthvað um forgangsröðun málaflokkanna,“ sagði Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka