Skúli Hansen
„Ef hæstvirtur núverandi forsætisráðherra hefði betur lagt við hlustir hefði hann kannski lagt fram hófstilltari loforð fyrir síðustu kosningar,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs á Alþingi í kvöld.
Sagði hún staðreyndina vera þá að staðan sé nokkurn veginn sú sem kynnt hefur verið og að það sé staðfest í greiðsluuppgjöri ríkissjóðs fyrir fyrstu fjóra mánuði þessa árs, en þar komi fram að tekjur ársins teljist á áætlun. Jafnframt sagði hún nýja hagspá OECD staðfesta batann hér á landi.
„Staðreyndin er sú að hvorugur þeirra flokka sem sátu í síðustu ríkisstjórn bauð uppá útbólgin kosningaloforð eða ofmat á stöðu ríkissjóðs. Vinstrihreyfingin – grænt framboð lagði fram heildstæða endurskoðaða ríkisfjármálaáætlun sem byggði á þeirri leið sem farin var á síðasta kjörtímabili, með aukinni tekjuöflun og fjölbreyttari stoðum í atvinnuuppbyggingu,“ sagði Katrín í ræðu sinni og bætti við: „Ennfremur lögðum við fram tillögur hvernig mætti nýta það svigrúm sem hér gæti skapast til að efla samfélagsstoðirnar; heilbrigðis- velferðar- og menntakerfið og tryggja þannig samfélagslega uppbyggingu í þágu fólksins í landinu.“