Höft eins og blikkandi ljósaskilti

Bjarni Benediktsson á Alþingi. Mynd úr safni
Bjarni Benediktsson á Alþingi. Mynd úr safni mbl.is/Kristinn

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði á ræðu sinni á Alþingi í kvöld að hið góða bú sem núverandi stjórnarandstaða hefði í sífellu talað um væri ekki eins gott og þau vildu vera láta.

„Töluverðar breytingar hafa hins vegar orðið bæði á tekju- og útgjaldahliðinni frá því fjárlög voru afgreidd. Ákvarðanir sem teknar voru undir lok síðasta árs um aukin útgjöld byggðu á tekjum, s.s. arðgreiðslum og sölu eigna, sem eru ekki að skila sér að fullu, þar gæti vantað um 4 milljarða króna. Hagvöxtur er minni en gert var ráð fyrir og má búast við lægri tekjum vegna þess um a.m.k. 4 milljarða. Þá er á þessu stigi útlit fyrir að ýmis umframútgjöld gætu orðið nálægt 6 milljörðum.

Það verður þó tekið til skoðunar hjá ráðuneytum hvernig bregðast megi við þeirri stöðu. Þessu til viðbótar er rétt að gera ráð fyrir þeim möguleika aðgjaldfæra þurfi verulegan hluta af fyrirhugðu 13 milljarða króna framlagi ríkisins til Íbúðalánasjóðs. Samanlagt breyta þessar forsendur myndinni í ríkisfjármálum allverulega og má, miðað við þessar forsendur, gera ráð fyrir að það stefni í sama halla og á fyrra ári eða rúmlega 30 milljarða,“ segir Bjarni.

Hann fagnaði þeim samstarfsanda sem honum þykir ríkja á nýju þingi:

„Af þeirra hálfu má strax finna vilja til að störf þingsins geti orðið undir merkjum meiri samstarfs og samstöðu en á nýloknu kjörtímabili. Það er mjög ánægjulegt og ég hlakka til að vinna með þingmönnum öllum að málum sem verða landsmönnum til heilla og framfara.“

Skattkerfið og hallalaus rekstur ríkissjóðs varð Bjarna líka umtalsefni í ræðu hans:

„Við ætlum okkur að endurskoða skattkerfið, einfalda það og lækka skatta þar sem það getur augljóslega létt undir með einstaklingum og fyrirtækjum, orðið til þess að örva hagvöxt og fjölga störfum. Þótt þær tölur sem við höfum nú fengið um stöðu ríkisfjármálanna sýni verri stöðu en gert var ráð fyrir, breytir það ekki þeirri ætlan okkar að reka hér hallalausan ríkissjóð. Á yfirstandandi ári var samkvæmt fjárlögum stefnt að því að lækka hallann á ríkisrekstrinum verulega og nálgast heildarjöfnuð þegar fjárlög eru skoðuð á rekstrargrunni,“ segir Bjarni. 

Bjarni sagði gjaldeyrishöftin vera eins og blikkandi ljósaskilti yfir landinu.

„Gjaldeyrishöftin hvíla eins og mara á íslensku efnahagslífi. Íslensk fyrirtæki standa höllum fæti gagnvart erlendum vegna þeirra, missa af mikilvægum tækifærum vegna seigju kerfisins og innlendir fjárfestar eiga erfitt með að dreifa áhættu í fjárfestingum sínum vegna takmarkana á fjármagnsflutningum.

Meðan höftin standa erum við eins og gölluð vara í augum umheimsins. Ég hef stundum sagt að þau séu eins og blikkandi ljósaskilti yfir landinu sem á stendur: Varúð - við trúum ekki á virði gjaldmiðilsins - og það er ósanngjarnt að land sem býr yfir jafn miklum og spennandi tækifærum og Ísland skuli vera í þeirri stöðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka