Ísland á að vera í fararbroddi í Norðurslóðasamstarfi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. Morgunblaðið/Kristinn

„Ísland þarf að leggja áherslu á að vera í fararbroddi í norðurslóðasamstarfi, með tilliti til nýtingar auðlinda á svæðinu, umhverfisverndar og opnunar nýrra siglingaleiða um norðurhöf,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld.

Mikilvægt sé að hefja strax vinnu við að fá til landsins verkefni tengd hinni hröðu þróun í þessum heimshluta.

Þá sagði Sigmundur Davíð að sérstök áhersla verði lögð á að efla samvinnu og samstarf við frændþjóðir okkar á Norðurlöndunum. „Í því skyni hef ég þegar átt tvíhliða fundi með forsætisráðherrum Noregs, Finnlands og Grænlands, og mun eiga slíka fundi með forsætisráðherrum Svíþjóðar, Danmerkur og Færeyja á næstu vikum,“ sagði Sigmundur Davíð í ræðunni.

Jafnframt benti Sigmundur Davíð á að umhverfisvernd og barátta gegn loftslagsbreytingum vera eitt af sameiginlegum viðfangsefnum heimsbyggðarinnar og þar gæti Ísland bæði lagt mikið af mörkum og gert betur.

„Aukin uppbygging og endurheimt gróður- og jarðvegsauðlinda og efling skógræktar og landgræðslu mun auka kolefnisbindingu. Mikilvægt er að skipuleggja þær aðgerðir vel og stuðla um leið að nýtingu innlendra vistvænna orkugjafa,“ sagði Sigmundur Davíð og benti á að horfa þurfi sérstaklega til þess hvernig saman geti farið á bæði skynsamlegan og faglegan hátt náttúruvernd og nýtinga auðlinda lands og sjávar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, flytur stefnuræðu sína.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, flytur stefnuræðu sína. Morgunblaðið/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert