Leggur fram 10 skrefa áætlun

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, flytur stefnuræðu sína.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, flytur stefnuræðu sína. Morgunblaðið/Eggert

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, hyggst leggja fram þingsályktunartillögu sem inniheldur aðgerðaáætlun í tíu liðum sem varða nauðsynlegar aðgerðir í þágu heimilanna. Þetta kom fram í stefnuræðu ráðherrans á Alþingi í kvöld.

„Í aðgerðaáætluninni verður fjallað um undirbúning almennrar skuldaleiðréttingar, höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána, möguleikann á stofnun sérstaks leiðréttingarsjóðs ef önnur fjármögnun gengur of hægt og setningu svokallaðra lyklalaga. Sérfræðihópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum tekur til starfa, sem og verkefnisstjórn um endurskipulagningu húsnæðislánamarkaðarins,“ sagði Sigmundur Davíð í stefnuræðu sinni og bætti við: „Meðal annarra aðgerða sem ríkisstjórnin leggur til í áætluninni er að lögfest verði flýtimeðferð dómsmála sem tengjast skuldvanda heimilanna. Innanríkisráðherra hefur þegar lagt fram frumvarp þar að lútandi.“

Jafnframt sagði Sigmundur Davíð að kannaðir yrðu möguleikar á að sekta fjármálafyrirtæki vegna umtalsverðra tafa á endurútreikningi lána, miðaða að því að afnema stimpilgjöld vegna húsnæðiskaupa einstaklinga til eigin nota og fella niður eða aðstoða við fjármögnum kostnaðar vegna gjaldþrotaskipta.

Þá benti hann á að framlagning frumvarps um skýrar heimildir fyrir Hagstofu Íslands til að afla upplýsinga um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja frá fjármálafyrirtækjum væri einnig hluti af umræddri áætlun. Loks væri í henni kveðið á um að tillögur sérfræðingahópa og frumvörp samkvæmt áætluninni verði lögð fram þegar á haustþinginu.

Þá benti hann á að þó svo að sumarþingið stæði ekki lengi þá væri engi að síður mikilvægt að setja af stað vinnu við þau stóru mál sem tekin verða fyrir á þinginu í haust, þetta ætti alveg sérstaklega við um skuldamál heimilanna  og annað er varðaði hag fjölskyldna í landinu með beinum hætti. „Þess vegna var sérstakt fagnaðarefni að þingmenn stjórnarandstöðu skyldu strax, áður en þing var sett, lýsa sig viljuga til að greiða götu þeirra mála,“ sagði Sigmundur Davíð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert