Mikil tímamót í pólitíkinni

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Rósa Braga

„Það eru mikil tímamót núna í pólitíkinni. Það er ný kynslóð tekin núna við stjórnartaumunum, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu,“ sagði Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, í ræðu sinni á Alþingi í kvöld.

Þá sagði hann að í þessu fælist að hægt væri að breyta stjórnmálamenningu landsins. Margt hefði gengið á á síðasta kjörtímabilið og menn hefðu tekist á við fordæmalaus viðfangsefni. Guðmundur benti á að mikilvægt væri að menn einbeiti sér að því að festa ekki í sessi ýmsa ósiði sem urðu til á síðasta kjörtímabili, t.d. að menn færu ítrekað upp í pontu til að hindra að atkvæðagreiðsla færi fram.

"Við ættum ekki að stunda pólitík eins og við teljum að aðrir hafi stundað hana verst, heldur skulum við stunda hana eins og við viljum stunda hana best, hvert og eitt okkar," sagði Guðmundur og bætti við að kveikjan að stofnun Bjartrar framtíðar hefði verið löngun til að breyta stjórnmálunum. Jafnframt sagðist hann fagna því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, leggi áherslu á samvinnu og samstarf á þinginu.

Hann gagnrýndi í ræðu sinni harðlega hugmyndir um að sameina verkefni umhverfisráðuneytisins inn í önnur ráðuneyti og sagðist neita að trúa því umhverfisráðuneytið verði ekki sjálfstætt ráðuneyti.

Guðmundur benti á að í ríkisfjármálunum blasi við stórar spurningar. Samfélagið væri fjársvelt eftir langvarandi kreppu og efnahagsmálin óljós í stjórnarsáttmálanum. "Við verðum að minnsta kosti að ræða þann sannleik sem birtist í sáttmála ríkisstjórnarinnar að skattalækkanir almennt skapi tekjur," sagði Guðmundur í ræðunni og dró í efa að svo væri. Þá sagði hann að til stæði að vera hér með krónu án hafta en slíkt hefði áður mistekist illilega.l

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka