„Við búum við gnótt tækifæra“

Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason mbl.is

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, fagnaði í ræðu sinni á Alþingi í kvöld þeirri miklu endurnýjun sem varð á Alþingi í nýliðnum kosningum. Hann sagðist of oft hafa heyrt að hlutirnir hefðu alltaf verið gerðir með ákveðnum hætti, og því bæri að halda því áfram. Þannig hugsunarháttur væri ekki af hinu góða.

Um stjórnarskrárbreytingar hafði Árni Páll eftirfarandi orð:

„Að síðustu er það svo stóra tækifærið: Nú hefur verið lagt fram til staðfestingar eftir samþykkt á síðasta þingi, nýtt breytingaákvæði í stjórnarskrá lýðveldisins. Efni þess markar tímamót því með því verður Alþingi ekki lengur einrátt um stjórnarskrárbreytingar heldur fara þing og þjóð saman með valdið til að breyta stjórnarskránni. Ríkisstjórninni gefst með þessu tækifæri til að standa við fyrirheit sín í stjórnarsáttmála. Augljóslega á að hefja verkefnið með nýju ákvæði um þjóðareign á auðlindum. Við erum líka reiðbúin til að ræða grundvallabreytingar til góðs á þingsköpum í samhengi við breytingar á stjórnarskrá. Eigum við að sameinast um að veita þriðjungi þingmanna réttinn til að vísa málum í þjóðaratkvæði og binda þar með enda á málþófið?“

Hann gagnrýndi forsætisráðherra jafnframt fyrir það hik sem hann sýndi í boðaðri skuldaniðurfellingu.

Árni Páll gagnrýndi jafnframt þá „skynsemisstefnu“ sem forsætisráðherra hefði boðað. „Samt segir forsætisráðherra hér áðan að „horfurnar í rekstri ríkissjóðs séu miklum mun verri en haldið hefur verið fram“ og að það sé ekki fögur mynd sem við blasi, þótt allir viti að hann taki við góðu búi. Bíddu nú við. Rekstrarhorfurnar slæmar, en samt eru fyrstu verkin að auka útgjöld og draga úr tekjum. Hver er skynsemin í þessari stefnu?“ segir Árni Páll í ræðu sinni.

Hann sagði forsætisráðherrann hafa sagt margt fallegt í ræðu sinni, en áberandi hefði verið hvað hefði ekki verið sagt.

Hann sagði 21. öldina ekkert hafa komið við sögu. Fortíðarþráin væri svo sterk að orðið iðnaður kæmi hvergi fyrir í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar.

„Forsætisráðherra sagði áðan ekkert um þekkingu sem drifkraft efnahagsframfara, ekkert um nýjar skapandi greinar sem skila okkur sífellt fleiri þekkingarstörfum, ekkert um upplýsingatækni, sem getur bylt aðstæðum okkar til góðs, ekkert um bættan markaðsaðgang fyrir íslenskar afurðir og þjónustu, sem er hin raunverulega forsenda aukinnar matvælaframleiðslu,“ segir Árni Páll

„Á tímum óvissu er skiljanlegt að leita öryggis með því að draga sig inn í skel. Þannig er frestað glímunni við hið óþekkta. En ný kynslóð Íslendinga getur ekki hopað af hólmi. Nýjar ógnir hverfa ekki þótt við höldum okkur bara heima.“

Hann gagnrýndi forsætisráðherra fyrir afturhaldsstefnu. „Var þetta stefnuræða ríkisstjórnar fyrri aldar? Fannst hún í rykugu djúpi skjalasafns Framsóknarflokksins? Er hér í fæðingu ný pólitísk tilraun gamalgróinna haftaflokka til að finna öryggi sitt í helmingaskiptum?

Hér er enga viðreisnarstefnu að finna, sem vísaði út og fram. Þetta er stefna sem vísar inn á við og aftur á bak. Hún á hvorki nokkur svör við langtímaverkefnum íslensks samfélags né nokkra sýn til framtíðar. Fyrir Ísland 21. aldar er slík kyrrstaða ekki valkostur.“

Árni Páll sagði Íslendinga búa við gnótt tækifæra.

„Einar Benediktsson lýsti í Íslandsljóðum þeim vanda þjóðarinnar að búa við sjálfsköpuð takmörk: „bjargarlaus við frægu fiskisviðin“. Hvatning hans til þjóðarinnar er eins og skrifuð til leiðtoga ríkisstjórnar landsins: „Hve skal lengi dorga, drengir, dáðlaus upp við sand?! Við búum við gnótt tækifæra. Það eina sem við þurfum er bara að þora að nýta þau.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert