Bindur vonir við meiri hagsæld

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, mætir til ríkisráðsfundar á Bessastöðum.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, mætir til ríkisráðsfundar á Bessastöðum. mbl.is/Golli

Ekki eru uppi nein áform um að selji hlut ríkisins í Landsbankanum, þótt eining sé á Alþingi um að eðlilegt væri að fara að losa um eignarhald ríkisins í Arion og Íslandbanka. Þá er útlit fyrir að forsendur fyrir því að leggja Bankasýslu ríkisins af 2015 standist ekki.

Þetta segir Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, í viðtali við fréttablað Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja. 

Viðamiklir málaflokkar til ráðuneytisins

Fram kemur í viðtalinu að eitt af fyrstu verkum Bjarna í ráðherrastóli hafi verið að breyta skipulagi fjármála- og efnahagsráðuneytis. Segir Bjarni breytingarnar snúa að tilflutningi málefna fjármálamarkaðarins til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þar heyri þau nú undir skrifstofa efnahagsmála- og fjármálamarkaðar.

„Með þessum breytingum færast afar viðamiklir málaflokkar til ráðuneytisins, en þær hafa engin efnisleg áhrif á stofnanir á þessu sviði eða verkefni þeirra,“ segir Bjarni. Málaflokkarnir sem um ræður eru m.a. peningamál, gjaldeyrismál og mál er lúta að fjármálastöðugleika auk þess sem skrifstofan fer með málefni Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið.

Landsbankinn ekki seldur á næstunni

Aðspurður um stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi eignarhald ríkisins í bönkunum segir Bjarni að greina verði á milli eignarhluta í annars vegar Arion og Íslandsbanka, sem eining sé um að selja, og Landsbanka hins vegar. 

„Að svo komnu máli eru ekki uppi nein áform um að selja hlut ríkisins í Landsbankanum. Það er meira langtímamál hvernig eignarhaldi á þeim banka verður háttað,“ segir Bjarni.

Hann er einni spurður um framtíð Bankasýslu ríkisins, sem tók til starfa í ársbyrjun 2010 samkvæmt lögum sem kveða á um að hún eigi að hafa lokið störfum innan 5 ára.

Aðspurður hvort raunhæft sé að þetta standist segir Bjarni ekki tímabært að fullyrða um það, en „það bendir allt til þess að forsendur þessarar tímaáætlunar standist ekki. Ég held að það hlutverk Bankasýslunnar að leggja áherslu á endurreisn og uppbyggingu öflugs, innlends fjármálamarkaðar og stuðla að virkri og eðlilegri samkeppni á þeim markaði, tryggja gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi og tryggja virka upplýsingamiðlun til almennings, sé mikilvægt.“

Fjársýsluskatturinn til skoðunar

Bjarni segir að ýmsar tekjuöflunaraðgerðir ríkisins muni koma til skoðunar hjá ríkisstjórninni. Fjársýsluskatturinn sé ein þeirra. Samhljómur sé um það innan ríkisstjórnarinnar að tekjuöflunaraðgerðir eins og tryggingagjaldið þurfi að lækka þar sem það hafi neikvæð áhrif á atvinnulífið.

„[É]g bind vonir við það að aðgerðir ríkisstjórnarinnar leiði til meiri hagsældar og örvi allt efnahagslífið, hvetji þannig til fjárfestingar og aukinna umsvifa á fjármálamörkuðum.“

SSF blaðið má nálgast hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert