Frumvarpi um breytingu á lögum um veiðigjöld var dreift á Alþingi nú um kvöld. Frumvarpið er í samræmi við stefnuyfirlýsingu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins um að veiðigjöld verði tekin til endurskoðunar.
Lagt er til í frumvarpinu að veiðigjöld hvað snertir ákvörðun reiknaðrar rentu á þorskígildiskílói eftir veiðiflokkum og álagningu sérstaks veiðigjalds komi ekki til framkvæmda. Þess í stað er lagt til að gjöldin verði fastsett með líkum hætti og á yfirstandandi fiskveiðárið 2012/2013.
„Með þessu er ekki aðeins gefið svigrúm til endurskoðunar laganna á næsta reglulega löggjafarþingi í ljósi stefnumótunar ríkisstjórnarinnar og þeirrar gagnrýni sem hefur að þeim beinst, heldur einnig brugðist við þeim erfiðleikum sem hafa komið í ljós við framkvæmd þeirra,“ segir í athugasemdum við frumvarpið. Lög um veiðigjöld munu því ekki koma til fullra framkvæmda eins og annars hefði orðið, einkum hvað varðar sérstakt veiðigjald.
Sérstök veiðigjöld á fiskveiðiárinu 2013/2014 verða eingöngu ákvörðuð með krónutölu samkvæmt tillögu frumvarpsins. Álagningin nemi 7,38 kr. á hvert sérstakt þorskígildiskíló í botnfiskveiðum og 38,25 kr. á hvert sérstakt þorskígildiskíló í uppsjávarveiðum. Miðað við það ættu heildartekjur ríkissjóðs af veiðigjöldunum að nema 9,8 milljörðum kr.
„Gangi þessi áform frumvarpsins eftir má gera ráð fyrir að það muni fela í sér umtalsverða lækkun sérstaka veiðigjaldsins frá því sem reiknað var með á grundvelli nýlegra laga um veiðigjöld sem tóku gildi um mitt síðasta ár,“ segir í fylgiskjali við frumvarpið frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Í þeim var gert ráð fyrir um 14 milljarða kr. heildartekjum af veiðigjöldunum. Því er ljóst að verði frumvarpið að lögum mun það hafa töluverð áhrif til lækkunar á tekjuáætlun ríkissjóðs árin 2013 og 2014.
Frumvarpið hefur einnig að geyma tillögu um nýja verðmætaviðmiðun, svonefnda „sérstaka þorskígildisstuðla“ til álagningar veiðigjalda á komandi fiskveiðiári. Tilgangur þessa er að jafna veiðigjöldum niður með öðrum hætti en í gildandi lögum þar sem stuðst er við venjuleg þorskígildi skv. 19. gr. laga um stjórn fiskveiða.
Í þriðja lagi er mælt fyrir um heimild til að seinka gjalddögum álagðra veiðigjalda í þeim tilvikum þegar langur tími mundi ella líða frá því að gjöldin eru lögð á og veiðar á viðkomandi tegund hefjast.