Tjón skiptir hundruðum milljóna

Túnin plægð á Steinsstöðum II í Öxnadal.
Túnin plægð á Steinsstöðum II í Öxnadal. Skapti Hallgrímsson

Áætla má að þúsundir hektara túna á Norður- og Austurlandi séu ónýtar vegna kals í túnum. Aukakostnaður við að endurrækta hvern hektara er að minnsta kosti 100 þúsund krónur þannig að gera má ráð fyrir að heildarkostnaður hlaupi á hundruðum milljóna. Samkvæmt því stefnir í að tjón bænda verði mun meira en af völdum óveðursins fyrir norðan í haust og eldgosanna á Suðurlandi.

Ráðunautar Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) hafa verið að skoða tún hjá þeim bændum sem óskað hafa eftir því og meta hversu mikið telst ónýtt. Þeir hafa enn enga heildarmynd af stöðunni enda ekki búið að heimsækja nærri alla bændur og tjón sums staðar ekki komið í ljós. Borgar Páll Bragason, fagstjóri hjá RML, segir að tilgangur heimsóknanna sé fyrst og fremst að veita ráðgjöf. Fara yfir það með bændum sem orðið hafa fyrir tjóni hvaða úrræði þeir hafi til að afla fóðurs.

Kal almennt og víðtækt

Eins og komið hefur fram er mesta tjónið á svæðinu frá austanverðum Skagafirði, á vissum svæðum í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum og austur á Hérað. Einnig er töluvert kalið í Austur-Húnavatnssýslu, á Ströndum og í Ísafjarðardjúpi. Yfirferð ráðunauta og forystumanna sauðfjárbænda bendir til að kal sé almennara og víðtækara á Fljótsdalshéraði en menn gerðu sér grein fyrir. Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda, telur að mesta kalið sé í Fnjóskadal og Aðaldal en mest sláandi hafi þó verið að koma á Hérað.

Kal sem ráðunautar hafa skoðað er oft á bilinu 30% til 80-90% af túnum viðkomandi bænda. Þúsundir hektara eru á hverju svæði og auðvelt að reikna sig í stórar tölur ef til dæmis er miðað við að helmingur túna sé kalinn.

Margir bændur hafa farið í mikla endurræktun til að reyna að ná einhverju fóðri í skepnur sínar fyrir veturinn. Aðrir leita að slægjum í sínu héraði. Svo er talsvert um að borið sé á skemmd tún, í þeiri von að sumarið verði gott og þau gefi sæmilega uppskeru.

mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka