„Ég held að það sé fullur vilji hjá báðum hópum til að láta þetta ganga,“ segir Ómar Sigurvin Gunnarsson, formaður Félags almennra lækna, um stöðu mála í deilu kandídata og stjórnvalda og yfirstjórnar Landspítalans. Viðræður hafa staðið yfir að undanförnu, en að sögn Ómars virðist enn ekki liggja fyrir lausn í málinu.
Áður hefur komið fram að þorri læknakandídata íhugi að sinna starfsnámi sínu annars staðar en á Landspítalanum, en kandídatar eru meðal almennra lækna á Landspítala sem gegna að sögn læknaráðs gríðarlega mikilvægu hlutverki í þeirri læknisþjónustu sem Landspítalinn veitir, bæði við móttöku sjúklinga, greiningu og meðferð sjúkdóma. Nú hefur læknaráð Landspítala lýst yfir þungum áhyggjum vegna bágri mönnun almennra lækna á lyflækningasviði Landspítala.
„Ég held að það sé ekki kominn neinn botn í málið,“ segir Ómar, um stöðu mála í deilu unglækna og stjórnvöld og yfirstjórn Landspítalans. Unglæknarnir hafa lýst yfir áhyggjum af skorti á kennslu og vilja þeir meiri stuðning í vinnunni, aðlögun áður en þeir hefja störf og greiðslu álags vegna undirmönnunar.
„Að óbreyttu koma þau ekki til vinnu,“ segir Ómar en segist þó vera bjartsýnn. „Ef fólk hefur huga á því, þá held ég að það sé hægt að leysa þetta farsællega,“segir hann. „Það þarf að koma til móts við það sem kandídatarnir hafa bent á, sem ég tel að séu réttmætar ábendingar og kröfur.“
Að sögn Björns Zoega, forstjóra Landspítalans, ganga viðræðurnar við kandídatana ágætlega en hluti kandídatanna hafi hafið störf síðastliðin mánaðarmót. Hann segir deiluna ekki snúast um sparnað, heldur aðeins hvernig stöðurnar verði mannaðar. „Mönnunin mætti vera betri, óháð viðræðum við kandídatana,“ sagði Björn.
Frétt mbl.is: Vantar lækna á lyflækningasvið
Frétt mbl.is: Viðræður við læknakandídata
Frétt mbl.is. „Upplifa sig sem vinnudýr“