Hreyfiseðlar í stað lyfseðla

Heilsubótarskokk.
Heilsubótarskokk. mbl.is/Golli

„Það er staðreynd að fleiri deyja úr velmegun heldur en vannæringu og þessir s.k. lífstílssjúkdómar eiga það sameiginlegt að við getum sjálf haft áhrif á framgang þeirra,“ segir Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS, sem hefur haft forgöngu um innleiðingu s.k. hreyfiseðla í heilbrigðiskerfinu.

Segja má að hreyfiseðlarnir séu ákveðin bylting í hugarfari og nálgun en innleiðing þeirra hér er gerð að fyrirmynd Norðurlandanna þar sem þeir hafa gefið góða raun. Hugmyndin er sú að læknar heilsugæslunnar skrifi út hreyfiseðil fyrir þá einstaklinga sem þeir telja að hafi meira gagn af slíkri meðferð en t.d. lyfjagjöf.

Tilraunaverkefni til tveggja ára

„Sjúkdóma sem stafa af lífstíl er oft best að lækna með lífstíl, en ekki með pillum. Hugmyndafræðin er sú að ráðast að orsökum sjúkdómsins og vinna á þeim með breyttum lífstíl í stað þess að gefa t.d. verkjalyf við bakverkjum,“ segir Guðmundur.

Skipulögð hreyfing er sögð öflugt meðferðarúrræði m.a. til að vinna á sjúkdómum og sjúkdómseinkennum eins og langvarandi verkjum, kvíða, depurð, sykursýki, offitu, kransæðasjúkdómum, hjartabilunareinkennum, afleiðingum lungnaþembu, háum blóðþrýstingi, hækkuðum blóðfitum svo eitthvað sé nefnt. 

Hreyfiseðillinn er tilraunaverkefni til tveggja ára og er stefnt að því að á því tímabili verði hann orðinn raunhæfur valkostur í heilbrigðiskerfinu á öllu höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri, en til framtíðar á landinu öllu. Gert er ráð fyrir rúmlega einu stöðugildi samhæfingaraðila sem fer á milli heilsugæslustöðva til að fylgja verkefninu eftir. Þegar hafa 17 heilsugæslustöðvar samþykkt þátttöku.

Í staðinn fyrir eða samhliða lyfseðli

Hreyfiseðillinn á að standa jafnfætis lyfseðlinum á heilsugæslunni og verður skrifaður út ýmist í stað hans eða samhliða lyfseðli. Þegar læknir skrifar út hreyfiseðil er einstaklingnum vísað til samhæfingaraðila innan heilsugæslustöðvarinnar til ráðgjafar og eftirfylgni. Þar verða möguleikar og geta til hreyfinga metin, sett fram markmið og útbúin  æfingaáætlun.

Auður Ólafsdóttir sjúkraþjálfari skrifar um framkvæmd verkefnisins í nýjasta tölublað SÍBS blaðsins og segir að lagt sé upp með að samhæfingaraðilarnir hafi þekkingu á sjúkdómafræði og lífeðlisfræði þjálfunar tengdri sjúkdómum.

Á komandi tímum er áætlað að setja upp námskeið fyrir þá sem vilja bjóða upp á hreyfiúrræði samkvæmt hreyfiseðli og að þeir öðlist vottun sem slíkir, að sögn Auðar.

Eftirfylgni, hvatning og gagnvirk endurgjöf fer svo fram annað hvort í gegnum síða eða rafræn samskipti á síðunni hreyfisedill.is, þar sem einstaklingurinn getur skráð hreyfingu samkvæmt áætlun. Þá verður síðsumars opnuð vefsíðan hreyfitorg.is þar sem verður hægt að finna öll þau hreyfiúrræði sem boðið er upp á.

Eins og áður segir byrjar hreyfiseðillinn sem tilraunaverkefni til tveggja ára en markmiðið er að hann verði innleiddur varanlega í heilbrigðiskerfið, að sögn Guðmunds. „Við vonumst eindregið til að þetta verði til framtíðar.“

Facebook síða hreyfiseðilsins

Guðmundur Löve er framkvæmdastjóri SÍBS.
Guðmundur Löve er framkvæmdastjóri SÍBS.
Göngutúrar í góða veðrinu geta verið góð hreyfing.
Göngutúrar í góða veðrinu geta verið góð hreyfing. mbl.is/Ómar Óskarsson
Í líkamsræktarstöð
Í líkamsræktarstöð mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert