„Mesta árás sem ég hef lent í“

María Birta Björnsdóttir.
María Birta Björnsdóttir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Mér brá ofsalega, þetta er mesta árás sem ég hef lent í,“ sagði María Birta Bjarnadóttir, verslunareigandi og afhafnakona, við skýrslutökur í héraðsdómi í morgun. Í dag fór fram aðalmeðferð í máli Maríu Birtu gegn Unu Jóhannesdóttur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

María Birta höfðaði málið vegna birtingar auglýsingar á stefnumótasíðunni einkamal.is með símanúmeri hennar og sakar hún Unu um að hafa birt auglýsinguna og brotið á friðhelgi einkalífs hennar og valdið henni þannig tjóni. Una hefur viðurkennt að hafa tekið þátt í gerð auglýsingarnar en neitar að hafa birt hana. 

Vildu vita hvað hún tæki fyrir kynlífsathafnir

Í málinu er Unu gefið að sök að hafa birt auglýsingu á síðunni einkamal.is þar sem símanúmer Maríu Birtu kom fram. Í málflutningsræðu lögmanns Maríu Birtu kom fram að í auglýsingunni hafi kona með blá augu auglýst kynlífsþjónustu. Þar var hún sögð elska perlufestar og gylltar sturtur og fylgdi símanúmer Maríu með. Lögmaður Maríu sagði í réttarsalnum í morgun að gyllt sturta sé athöfn þegar tveir aðilar „hlanda“ yfir hvorn annan.

María fékk í kjölfarið mörg skilaboð frá einstaklingum sem voru að sögn hennar áhugasamir um kynmök. „Þetta voru skilaboð í gegnum símann frá mönnum sem vildu vita hvaða upphæð ég tæki fyrir kynlífsathafnir,“ sagði María Birta í morgun, en skilaboðin bárust henni í gegnum símtöl, sms-skilaboð og svör í gegnum einkamal.is. Hún var meðal annars spurð hvort hún byði upp á BDSM. 

Atburðarrás málsins var á þá vegu að stefnda, Una Jóhannesdóttir, var stödd á heimili sínu ásamt tveimur vinkonum sínum og bjó önnur þeirra einnig á heimilinu. Una hafði sig til en ferðinni var heitið á skemmtistað. Að sögn Unu ræddi hún við sambýliskonu sína um gerð auglýsingarinnar og var hún eftir það sett inn á vefinn. Eftir það fóru konurnar þrjár á skemmtistaðinn Barböru á Laugarvegi.

Sagði Maríu ekki sannleikann

María Birta var einnig stödd á skemmtistaðnum þetta kvöld og var hún komin þangað þegar henni barst fyrsta símtalið vegna auglýsingarinnar. María hafði þá þegar samband við lögregluna þar sem henni var bent á að koma morguninn eftir og kæra málið, ásamt því að svara ekki frekari símtölum. María breytti skilaboðum talhólfs síns eftir að hafa rætt við lögreglu þannig að nafn hennar kom fram í þeim, en hélt áfram að svara símtölum næstu klukkustundina. Henni bárust í heildina tæplega tuttugu símtöl vegna auglýsingarinnar. 

María hitti Unu á skemmtistaðnum stuttu síðar og var í töluverðu uppnámi vegna málsins, en Una greindi Maríu ekki frá því hver bæri ábyrgð á auglýsingunni. Una kveðst þó hafa beðið sambýliskonu sína um að taka auglýsinguna út og var það gert eftir að auglýsingin hafði verið í um eina klukkustund á internetinu. 

Við lögreglurannsókn kom í ljós að auglýsingin var sett inn í gegnum IP-tölu sem skráð var á Unu, en síðar um kvöldið var farið inn á aðganginn í gegnum aðra IP-tölu sem tilheyrir skemmtistað í miðborg Reykjavíkur.

Tvö vitni mættu fyrir dóminn í morgun, vinur Maríu Birtu sem hún hringdi í kvöldið sem auglýsingin birtist og ein kvennanna sem voru staddar heima hjá Unu þetta kvöld.  

Segja röngum aðila stefnt í málinu

Í skýrslutöku við aðalmeðferð í morgun kannaðist stefnda, Una Jóhannesdóttir, ekki við að hafa sett auglýsinguna inn á síðuna en segir sambýliskonu sína hafa verið að verki.

Una viðurkenndi þó að hafa átt hlut að máli með samræðum við hana á meðan auglýsingin var gerð. Í ræðu lögmanns Unu, Arnar Kormáks Friðrikssonar, kom fram að röngum aðila hefði verið stefnt í málinu. Ekki hefur náðst í téða sambýliskonu Unu vegna málsins, en hún er sögð vera búsett erlendis. Mætti hún því ekki fyrir dóminn. 

María Birta Bjarnadóttir fer fram á 500.000 krónur í skaðabætur að viðbættum dráttarvöxtum ásamt því að Una Jóhannesdóttir greiði málskostnað. Við aðalmeðferðina hvatti dómari konurnar til að leita sátta en að sögn lögmanna þeirra kom það ekki til greina. 

Málið hefur verið dómtekið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert