Glæfralegur ökumaður fældi hesta

Krakkarnir voru á leið heim í hesthús á reiðnámskeiði þegar …
Krakkarnir voru á leið heim í hesthús á reiðnámskeiði þegar slysið varð. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fimm ára drengur liggur á gjörgæslu með rofna lifur og innvortis blæðingar eftir að hafa dottið af hestbaki þegar bíll flautaði á hóp barna á hestbaki í hestahverfinu í Garðabæ í gær.

„Elsku strákurinn minn lenti í hrikalegu óhappi í dag. Hópurinn hans var að koma ríðandi heim u.þ.b. 20 metra frá hesthúsinu þegar bíll kemur, keyrir glæfralega og flautar og flautar á hestahópinn sem tryllist og allir litlu hestaknaparnir duttu af og meiddust,“ segir Sigurbjörg Magnúsdóttir á Facebook-síðu sinni. Fimm ára sonur hennar Patrekur, sem datt af baki var fluttur á slysavarðstofu Landspítalans í Fossvogi og reyndist vera með rofna lifur og innvortis blæðingar í kviðarholi, en þó óbrotinn. „Við þökkum Guði fyrir að ekki fór verr og hann sé ekki í lífshættu en það er stöðugt fylgst með því hvort að blæðingin aukist hjá honum og þess vegna er hann hérna á gjörgæslunni.“

Sjái sóma sinn í að gefa sig fram

Ekki náðist niður númer bílsins sem sagður er hafa valdið slysinu. „Ég vona svo innilega að ef sá sem keyrði og flautaði á börnin eins og vitleysingur sjái sóma sinn í því að gera þetta aldrei aftur og gefa sig fram því börnin eru í áfalli og misilla farin á líkama og sál,“ segir í stöðuuppfærslu Sigurbjargar. Hún þakkar starfsfólkinu á slysavarðstofu og gjörgæslu kærlega fyrir andlegan stuðning, góðmennsku og hlýju. Þá biður hún þá sem gætu haft upplýsingar um ferðir bílsins um hestahverfið í Andvara að Kjóavöllum í Garðabæ um klukkan 15:45 í gær að hafa samband í síma 849-9103.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert