Drengurinn sem datt af hestbaki vegna glæfralegs aksturs í gær er á batavegi, en ökumaður ljóslits fólksbíls er talinn hafa orðið valdur að slysinu.
Patrekur Jóhannesson, sem er fimm ára gamall, var ásamt öðrum börnum í útreiðartúr hjá Reiðskólanum Eðalhestum í Garðabæ þegar atvikið átti sér stað. Halla María Þórðardóttir, eigandi Eðalhesta, lýsti atvikinu sem svo að hópurinn hefði verið rétt ókominn aftur í hesthús úr reiðtúr. Á einum stað á leiðinni verður að fara yfir götu til að komast í hesthúsahverfið, sem Halla segir vera mjög hættulegt fyrirkomulag. Á leið þeirra yfir götuna hafi fólksbíll komið keyrandi frá Vífilstaðavatni á fleygiferð í og flautað á hópinn.
Bæði börnum og hestum hafi orðið bylt við og fjögur börn dottið af baki; tvö tæplega sex ára og tvö átta ára. Patrekur hafi verið sá eini sem slasaðist svo alvarlega en þeim hafi verið mjög brugðið og hafi öll verið flutt á slysavarðstofu. Halla segir svæðið vera mjög opið og ekki möguleika á að bílstjórinn hafi ekki séð hópinn.
Sigurbjörg Magnúsdóttir, móðir Patreks segir sér hafa brugðið illa í brún þegar hún kom á staðinn örfáum mínútum síðar og verið var að bera son hennar inn í sjúkrabíl. „Það sem var mest áfall var þegar hann var inni í sjúkrabílnum og læknirinn var að skoða undir fótunum á honum. Hann spurði hvort hann fyndi fyrir þessu og hann svaraði nei og hreyfði ekki fæturna. Svo stuttu seinna var hann byrjaður að fá máttinn í fæturna því hann hafði bara dofnað í líkamanum því hann er marinn í kringum hrygginn, nálægt mænunni,“ útskýrir Sigurbjörg, „fyrir fimm ára barn er þetta eins og tveggja metra fall á fleygiferð.“
Enn er ekki vitað hver bílstjórinn var en Sigurbjörg segir hlaupahóp hafa greint frá því að ljós fólksbíll og jeppi hafi verið í hraðakstri í hverfinu á þeim tíma sem slysið varð. Allar upplýsingar þar um eru vel þegnar, en hafa má samband við Sigurbjörgu í síma 869-9103. Biðlað hefur verið til Garðabæjar um að setja upp hraðahindranir til að koma í veg fyrir að slíkt hendi aftur.
Frétt mbl.is: Glæfralegur ökumaður fældi hesta