Rappa um Jón Sigurðsson

Samband ungra sviðslistasnilla (S.U.S.), sem skipað er þeim Evu Halldóru Guðmundsdóttur, Guðmundi Felixsyni, Þorvaldi Sigurbirni Helgasyni og Völu Kristínu Eiríksdóttur, var meðal þeirra listhópa Hins hússins sem lífguðu upp á miðbæinn í hádeginu í dag í fyrsta Föstudagsfiðrildi sumarsins. Þau stunda öll nám við Listaháskóla Íslands, annars vegar við fræði og framkvæmd og hins vegar á leikarabraut.

S.U.S. fæst við nýtt viðfangsefni í hverri viku en í dag bauð hópurinn gestum og gangandi upp á svokallaðan menningarmatseðil. Þá býðst áhorfendum að velja örverk af þar til gerðum matseðli hópsins, en þegar blaðamann mbl.is bar að garði sýndi hópurinn furðunákvæma 60 sekúndna útgáfu stórmyndarinnar Titanic við mikinn fögnuð viðstaddra.

„Það er ótrúlega gaman að vinna við það sem maður hefur áhuga á,“ segir Guðmundur. Eva Halldóra tekur í sama streng; „Þetta er auðvitað brjálað tækifæri frá Hinu húsinu að leyfa okkur að gera þetta, vinna þar sem ástríðan liggur og fá borgað fyrir það.“ Segja má að hópurinn sé í takt við það þjóðmenningartal sem einkennt hefur undanfarnar vikur en á menningarmatseðlinum eru m.a. ellefu íslensk dægurlög á 60 sekúndum, Íslandssagan á 60 sekúndum og 60 sekúndna rapp um Jón Sigurðsson.

Þau voru þakklát veðurguðunum fyrir að fá að leika listir sínar í glampandi sól og hita eftir súld undanfarinna vikna. „Þetta er alveg fullkomið, góða veðrið kom akkúrat þegar við erum að sýna,“ segir Þorvaldur. Aðspurð hvort sumarið væri nú loks komið voru þau voru rög við að lýsa því afdráttarlaust yfir af ótta við að fæla sólina í burtu. Vala Kristín tók þó af skarið: „Jú, ég segi að sumarið sé komið og við tökum þá fulla ábyrgð á því ef það rignir svo á morgun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert